Nokkrar breytingar urðu í yfirstjórn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020, en sú helsta var að snemma árs var skipt um lögreglustjóra.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fráfarandi lögreglustjóri, var þá skipuð ríkislögreglustjóri og við störfum hennar hjá embættinu tók Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs. Hulda Elsa gegndi stöðunni tímabundið, en í maí tók Halla Bergþóra Björnsdóttir formlega við lyklavöldum. Halla Bergþóra hafði þá nokkru áður verið skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að undangenginni auglýsingu um starfið. Hún þekkti mjög vel til lögreglunnar og málefna hennar, en Halla Bergþóra, sem er lögfræðingur að mennt og var afleysingamaður í lögreglunni samhliða námi, starfaði lengi í dómsmálaráðuneytinu og var síðar sýslumaður og lögreglustjóri á Akranesi árin 2009-2015 og síðan lögreglustjóri á Norðurlandi eystra frá árinu 2015.
Í móttöku fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem starfrækt er í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, var í nógu að snúast á árinu 2020, en þar störfuðu að jafnaði þrír lögreglumenn. Fyrstu tvo mánuði ársins bárust samanlagt um 180 umsóknir, en aldrei áður höfðu borist svona margar umsóknir í byrjun árs frá því að móttakan tók til starfa árið 2017. Því var jafnvel búist við metfjölda umsókna um alþjóðlega vernd árið 2020, en þá kom heimsfaraldurinn til sögunnar og breytti öllu. Umsóknum fækkaði verulega í mars og apríl og í maí voru þær sárafáar. Fjöldinn jókst aftur í júlí, en þá voru umsóknirnar rúmlega 100 og var það annasamasti mánuðurinn hvað þetta varðar. Í ágúst, september og október bárust samanlagt tæplega 230 umsóknir um alþjóðlega vernd, en síðustu tvo mánuði ársins fækkaði þeim aftur og voru þær þá samanlagt hátt í 60. Alls voru lagðar fram 653 umsóknir á árinu, en þess má geta að þær voru um 850 árið á undan. Sem fyrr bárust margar umsóknir frá ríkisborgurum Venesúela og Íraks, en í hópi umsækjenda voru einnig áberandi einhleypir karlar með ríkisfang Palestínu. Þeir síðastnefndu voru með grísk ferðaskilríki gefin út á árunum 2018-2020, en hinir sömu komu flestir til landsins á seinni helmingi ársins.
Á árinu sinnti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Mikilvægt var að grípa snemma inn í til að vernda börn í viðkvæmri stöðu, ekki síst þar sem félagslegt álag jókst vegna COVID-19 faraldursins á fjárhag heimilanna og fjölskyldulíf. Lögreglan hafði verulegar áhyggjur af þróun ofbeldisbrota meðal ungmenna, vegna ofbeldismyndbanda sem ungmenni tóku upp og deildu á sérstökum vefsvæðum og mála þar sem hnífar komu við sögu hjá ungum gerendum. Um var að ræða verkefni sem hófst á vormánuðum og stóð yfir í nokkra mánuði, en embættið naut mikils stuðnings og velvilja frá bæði félagsmála- og dómsmálaráðuneytunum, sem lögðu til fjármuni vegna þessa. Um haustið var farið yfir stöðuna, en mikill vilji var til þess gera áfram vel í málaflokknum. Ýmsar hugmyndir voru á lofti, t.d. að fjölga úrræðum fyrir gerendur ofbeldisbrota sem eru börn að aldri.
Afskipti voru höfð af um 20 manns í umfangsmiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar í janúar í þágu rannsóknar vegna grunsemda um skráningar á kennitölum í gegnum Þjóðskrá með sviksömum hætti. Tæplega helmingur mannanna var færður á lögreglustöð, en þar kom í ljós að hinir sömu höfðu ekki atvinnuréttindi til starfa hérlendis. Útlendingastofnun fékk mál þeirra til frekari meðferðar, en mennirnir áttu yfir höfði sér hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Hinn helmingur hópsins gat ekki gert grein fyrir sér við afskiptin og því þurfti að ganga úr skugga um það með skoðun persónuskilríkja þeirra í framhaldinu. Tók það nokkurn tíma, en hinir sömu reyndust allir uppfylla tilskilin skilyrði til starfa á Íslandi og gátu þeir því haldið áfram störfum sínum. Rannsóknin laut einnig að vinnuveitendum mannanna og voru þeir kallaðir til yfirheyrslu til að leita frekari skýringa á tilurð málsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér afsökunarbeiðni í október og tók þar skýrt fram að hún styddi ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýttu undir slíkt. Tilefnið var umfjöllun fjölmiðla og myndbirtingar af lögreglumanni, en á búningi hans mátti sjá merki sem voru óviðeigandi með öllu. Embættið harmaði jafnframt mjög að hafa valdið fólki særindum vegna þessa og bað alla hlutaðeigendur innilegrar afsökunar. Skilaboðin sem mátti lesa úr merkjunum voru í engu samræmi við fræðslu, stefnu og markmið lögreglunnar. Lögreglumönnum hjá embættinu voru enn fremur send skýr fyrirmæli um að fjarlægja öll merki af lögreglubúningum sínum, sem voru ekki samræmi við reglugerð, hafi þau verið til staðar.
Á vormánuðum fékk Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nýjan sérhannaðan bíl til að sinna landamæraeftirliti. Bifreiðin, sem var í raun færanlega landamærastöð, var afurð verkefnis embættisins og Ríkislögreglustjóra og fyrir það var sótt um styrk hjá Innri Öryggissjóð Evrópusambandsins. Tilkoma bifreiðarinnar var m.a. hluti af viðbrögðum við ábendingum sem gerðar voru í úttekt á þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Bifreiðinni var ætlað að stuðla að bættri framkvæmd landamæraeftirlits á höfuðborgarsvæðinu. Í henni var m.a. fullkominn vegabréfaskanni, sem var tengdur við Interpol og Schengen-upplýsingakerfið. Auk þess var hægt að gefa út vegabréfsáritun á staðnum.
Embættið var tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimils og skóla 2020, en hún var til komin vegna sérstaks tilraunaverkefnis sem gekk m.a. út á að efla tengsl lögreglu við börn, ungmenni og íbúa með annað móðurmál en íslensku. Lögreglumennirnir Unnar Þór, Hreinn Júlíus og Birgir Örn höfðu frumkvæði að verkefninu, en því var mjög vel tekið og var tilnefningin tilkomin vegna starfa þeirra í Breiðholti að þessu máli. Þá hlaut lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Ísland árið 2020 fyrir störf í þágu barna og unglinga sem voru í vanda og þá nálgun sem hann hafði í samskiptum sínum við þau. Við athöfnina var Guðmundur sagður leggja sig fram um að nálgast ungmennin af virðingu og nærgætni til að auka ekki á vanlíðan þeirra og skaða. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var að sjálfsögðu stolt af þessum lögreglumönnum, sem og öðrum starfsmönnum embættisins, sem lögðu sig fram um að skila góðu starfi alla daga ársins.