Covid-19

Ársskýrsla 2020

Snemma árs fóru að berast af fréttir af kórónuveirunni, COVID-19, úti í heimi og breiddist hún nokkuð hratt út. Veiran lagðist misjafnlega á fólk, en margir veiktust mjög alvarlega.

Dauðsföll voru sömuleiðis tíð og sýnt var að þessi heimsfaraldur myndi valda miklum usla. Íslendingum var ljóst að það væri tímaspursmál hvenær veiran bærist hingað, en ötullega var unnið að því að hafa viðbragðsáætlanir tilbúnir þegar vágesturinn myndi knýja dyra. Þess var heldur ekki langt að bíða, en síðasta dag febrúarmánaðar greindist fyrsta tilfellið hér á landi. Dagurinn markaði tímamót, en segja má að líf allra landsmanna hafi tekið miklum breytingum og umturnast að ákveðnu leyti. Áður hafði verið lýst yfir óvissustigi vegna kórónuveirunnar, en því var breytt í hættustig eftir að sýni úr íslenskum karlmanni á miðjum aldri hafði reynst jákvætt fyrir COVID-19. Síðar átti eftir að lýsa yfir neyðarstigi, en í hönd fóru mjög erfiðir mánuðir. Ekkert bóluefni var í augsýn, en slíkt tekur jafnan nokkur ár að þróa, framleiða og koma á markað. Bjartsýni var því ekki ríkjandi þegar mars gekk í garð og útlitið sannarlega dökkt. Starfsumhverfi lögreglumanna var því mjög erfitt og ekkert í líkingu við það sem þeir höfðu áður upplifað. Einföld verkefni urðu allt að því flókin, enda kölluðu sóttvarnir á annars konar nálgun í samskiptum við borgarana.

Hér er m.a. vísað til þess að lögreglumenn þurftu oft og iðulega að klæðast sérstökum hlífðarbúningum þegar höfð voru afskipti af fólki og grímur og hanskar urðu jafnframt að staðalbúnaði. Stór hluti skrifstofufólks hjá embættinu fór enn fremur strax í byrjun mars að sinna verkefnum sínum að heiman og fjarfundir urðu allsráðandi. Sett voru upp hólf á öllum lögreglustöðvunum og aðgengi innandyra var breytt. Aðgerðunum var ætlað að vernda starfsemina eftir því sem kostur var og að takmarka áhrif þess ef smit kæmi upp hjá starfsmönnum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ráðstafanirnar voru nauðsynlegar og það sýndi sig glögglega þegar smit komu upp hjá embættinu. Það var erfitt við að eiga, en starfsemin gekk þó sinn vanagang, ekki síst vegna þeirrar fyrirhyggju sem sýnd var. Nokkur þúsund landsmanna veiktust af COVID-19 á árinu, margir mjög alvarlega og sumum varð ekki bjargað, því miður. Allt kapp var lagt á að hefta útbreiðslu faraldursins og gripið var til ýmissa ráða, jafnt hjá lögreglu sem öðrum.

Við lögreglustöðina á Hverfisgötu, á baklóðinni, var komið fyrir gámi svo ekki þyrfti að fara með fólk inn í bygginguna nema að nauðsyn krefði. Gámurinn þjónaði sínu hlutverki vel þótt fyrirkomulagið hefði vissulega í för með sér óhagræði, t.d. þegar flytja þurfti málsaðila á Hverfisgötuna vegna mála sem komu upp á varðsvæðum annars staðar í umdæminu. Flest mál eru þannig að þau er hægt að afgreiða á viðkomandi  lögreglustöð, en þær eru fjórar á höfuðborgarsvæðinu. Í COVID-19 var þessu öðruvísi farið því viðhafðar voru strangar, en nauðsynlegar reglur vegna sóttvarna og öll starfsemi embættisins tók mið af þeim. Þegar kom að vistun fanga var áfram notast við fangageymsluna, en hana þurfti að sótthreinsa oftar en einu sinni í þessu ástandi sem ríkti og sama átti við um ökutæki embættisins. Reyndar var afráðið mjög fljótlega að nota tiltekna bifreið til fólksflutninga, þ.e. ef grunur var um smit hjá viðkomandi. Þessi sama bifreið var svo sótthreinsuð eftir hverja ferð.

Eins og áður hefur verið rakið tengdust mörg verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 smitvörnum með einum eða öðrum hætti. Hjá embættinu voru skráðar um 1.200 tilkynningar vegna grunsemda um brot gegn gildandi reglugerðum um sóttvarnir, sóttkví eða einangrun. Gróflega má segja að ein tilkynning af hverjum tíu hafi leitt til þess að atvik væri tekið til nánari rannsóknar. Grunur var um brot gegn sóttvörnum í tæplega 80 tilvikum og grunur um brot gegn sóttkví og einangrun í um 50 tilvikum. Karlmenn voru í miklum meirihluta hinna grunuðu, eða 76%, og var meðalaldur þeirra 38 ár. Af þessu er ljóst að sóttvarnabrot voru á forgangslista lögreglunnar þetta árið, en mikil áhersla var lögð á að koma í veg fyrir og/eða stöðva þau. Starfsmenn lögreglu voru jafnframt kallaðir til strax og sérstöku smitrakningarteymi var komið á laggirnar, en vinna þess var ómetanleg þegar kom að því að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.