Samfélagsmiðlar gegna mikilvægu hlutverki þegar upplýsingamiðlun er annars vegar og því er nauðsynlegt að opinberar stofnanir veiti líka góða þjónustu á þeim vettvangi.
Hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er þetta engin nýlunda, en embættið hefur rekið samfélagsmiðla í áratug. Reynslan af því er góð og ástæða er til að efla þjónustuna þar ef eitthvað er. Fésbókarsíða lögreglunnar er flestum kunn, en fylgjendur hennar eru vel yfir 90 þúsund og er leitun að öðru eins. Þar er að finna upplýsingar af ýmsum toga, en fésbókarsíðan hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Hún hefur t.d. reynst ómetanleg við leit að fólki, en oftar en ekki berast upplýsingar til lögreglu eftir að hún hefur birt myndir á þeim vettvangi. Sama má segja þegar lýst er eftir vitnum í allskonar málum, þá láta viðbrögðin ekki á sér standa og árangurinn er eftir því. Það er því afar dýrmætt að búa yfir slíkum miðli, en upplýsingar á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu berast jafnan hratt til almennings, auk þess sem fólk er mjög duglegt að deila tilkynningum frá lögreglu þegar svo ber undir. Þá er einnig ljóst, m.a. samkvæmt viðhorfskönnunum embættisins, að fólk kýs gjarnan að eiga samskipti við lögreglu í gegnum samfélagsmiðla fremur en að senda tölvupóst, hringja eða koma á lögreglustöð í eigin persónu.
Lögregluvefurinn er líka vinsæll hjá þeim sem leita eftir upplýsingum eða tiltekinni þjónustu. Hann var uppfærður og gerður nútímalegri og þjónar nú hlutverki sínu enn betur en áður. Í gegnum lögregluvefinn er hægt að reka ýmiss erindi og þannig spara sér heimsókn á lögreglustöð. Á honum er jafnframt að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, en á árinu var t.d. komið þar fyrir sérstökum sektarreikni. Sýnir hann bæði upphæð sektar vegna hraðaksturs og sviptingartíma ökuréttinda svo eitthvað sé nefnt. Á lögregluvefnum er enn fremur hægt að tilkynna um ákveðin brot rafrænt og er það til mikils hægðarauka, t.d. um stolin reiðhjól eða farsíma. Þar má einnig finna öll þau helstu eyðublöð og reglur þeim tengdar vegna leyfa, sem eru gefin út af lögreglu. Á lögregluvefnum er líka hægt að leggja fram beiðni um tíma hjá kærumóttöku embættisins og það hafa margir gert. Fleira væri hægt að tína til í þessum efnum, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt sérstaka áherslu á að bæta alla þjónustu sem snýr að rafrænum samskiptum og vonandi sér þess merki.
Twitter og Instagram eru líka samfélagsmiðlar sem embættið hefur nýtt sér, en Instagram-síða lögreglunnar nýtur mjög mikilla vinsælda og það langt út fyrir landsteinana. Á henni er einkum að finna myndir úr starfinu þar sem lögreglumenn leyfa sér að slá á létta strengi og hefur það fallið vel í kramið. Að síðustu má nefna að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er einnig á Pinterest, en síðan gegnir afar mikilvægu hlutverki við að koma á framfæri upplýsingum um fjölda óskilamuna sem leitast er við að koma aftur í réttar hendur. Á Pinterest eru t.d. myndir af farsímum, reiðhjólum og skartgripum, auk mynda af ýmsum munum sem taldir eru tengjast innbrotum í umdæminu og hafa verið haldlagðir. Af framansögðu ætti mikilvægi samfélagsmiðla að vera öllum ljóst enda auðvelda þeir samskipti og það er lögreglunni, rétt eins og öllum öðrum stofnunum, nauðsyn.