Mikill meirihluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu, eða yfir 80%, ber traust til lögreglunnar og telur hana skila mjög eða frekar góðu starfi til að stemma stigu við afbrotum í umdæminu.
Hinir sömu telja Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu heiðarlega og að mikilvægt sé að fylgja fyrirmælum hennar við ólíkar aðstæður. Þetta kom fram í árlegri viðhorfskönnun sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lét framkvæma í maí og júní árið 2020. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmdina og náði úrtakið til 2.000 manns (netpanell), en niðurstöður könnunarinnar gefa embættinu mikilvægar vísbendingar um starfsemina. Svarhlutfallið þetta árið var um 60% og má það teljast ágætt. Almennt hafa íbúar í umdæminu jákvætt viðhorf til lögreglu, en um þriðjungur þeirra leitaði til hennar eftir þjónustu í einhverri mynd. Fólk í aldurshópnum 26-35 ára leitaði helst eftir aðstoð eða þjónustu, en þeir sem það gerðu voru ánægðir með viðbrögðin. Meirihluti þeirra sem höfðu samband við lögreglu hringdi í 112.
Konur reyndust jákvæðari í garð lögreglu en karlar, en einnig mátt greina mismunandi viðhorf til lögreglu eftir aldri þátttakenda. Þannig var eldra fólk almennt jákvæðara í garð lögreglu en þeir yngri. Sama átti við þegar viðhorf var greint eftir menntunarstigi, en þeir sem höfðu lokið háskólanámi voru jákvæðari gagnvart lögreglu. Ekki var að sjá skýrt mynstur í viðhorfi til lögreglu eftir búsetu þátttakenda á höfuðborgarsvæðinu, en þeir svöruðu einnig spurningum tengdum COVID-19. Í þeim hluta könnunarinnar kom fram að mikill meirihluti svarenda var hlynntur aðgerðum stjórnvalda til að vinna gegn heimsfaraldrinum. Flestir þátttakenda studdu jafnframt aðgerðir lögreglu vegna COVID-19 af heilum hug. Og þeir vildu enn fremur herða refsingar við brotum gegn samkomubanni. Mjög lítill hluti þeirra sem urðu varir við slík brot tilkynntu þau hins vegar til lögreglu. Frekari upplýsingar um viðhorfskönnunina er að finna á lögregluvefnum.