Tilkynningar um innbrot og þjófnaði bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu alla daga, en þær voru samtals um 4.000 árið 2020.
Það er nánast sami fjöldi tilkynninga og barst embættinu um innbrot og þjófnaði árið á undan, ótrúlegt en satt. Brotin dreifuðust yfir árið, en voru þó áberandi fleiri frá sumarlokum og fram á haust, eða mánuðina ágúst, september og október. Í hverjum þessara mánaða komu í kringum 400 mál á borð embættisins. Brotunum fækkaði aftur síðustu tvo mánuði ársins, en það breytti samt ekki þeirri staðreynd að seinni hluti ársins var mun verri en sá fyrri í þessum efnum. Þegar litið er til einstakra brota breyttist sumt en annað ekki. Hér má nefna að tilkynningum um reiðhjólaþjófnaði fór mjög að fjölga er leið á árið, eða frá vori og fram á haust. Þetta var svo sem engin nýlunda, en á tímabilinu frá apríl til október var fjölmörgum reiðhjólum stolið í umdæminu. Tilkynningar um reiðhjólaþjófnaði árið 2020 voru um 560. Hluti þeirra endar svo í vörslu lögreglu, en betur mætti ganga að koma reiðhjólum aftur í réttar hendur. Þegar það tekst ekki enda þau á uppboði hjá embættinu, sem enn og aftur minnir á miðla Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem nálgast má upplýsingar um óskilamuni, m.a. fundin reiðhjól. Sama gildir um síma, en myndir af fundnum símum er þar líka að finna. Tilkynningum um símaþjófnaði fækkaði annars mikið árinu, sérstaklega eftir að COVID-19 var skollið á, og varði það út árið.
Innbrot í umdæminu voru um 900, en meira en þriðjungur þeirra voru innbrot á heimili. Engu að síður fækkaði innbrotum almennt, þau voru um 1.000 árið 2019, þótt annað gilti um innbrot á heimili, en fjöldi þeirra tók litlum breytingum á milli ára. Kom það e.t.v. á óvart þar sem fólk var frekar lítið að heiman í samanburði við fyrri ár. Innbrotum í ökutæki fækkaði þó mjög mikið, en innbrotum í fyrirtæki fjölgaði hins vegar frá árinu á undan. Flestar tilkynningar um innbrot bárust í febrúar, júlí og ágúst, eða í kringum 100. Fæst voru innbrotin í maí, eða innan við 50, en hér er átt við öll innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Innbrot á heimili voru um 350 á árinu 2020 og innbrot í fyrirtæki voru litlu færri. Innbrot í ökutæki voru um 200, en mjög dró úr þeim undir árslok. Þannig voru tilkynningar um innbrot í ökutæki innan við 10 í bæði nóvember og desember. Þetta voru annars innbrot í ökutæki af ýmsum stærðum og gerðum, en snemma árs voru til rannsóknar innbrot í vinnuvélar. Úr þeim var stolið GPS-tækjum og var um töluverð verðmæti að ræða. Eigendur og umráðamenn vinnuvéla voru því hvattir til að vera á varðbergi og gera ráðstafanir ef því var við komið.
Síðla árs voru til rannsóknar mörg þjófnaðarbrot í Mosfellsbæ, en þar hafði m.a. verið brotist inn í geymslur á nokkrum stöðum í bænum. Í tengslum við málið var framkvæmd húsleit á tveimur stöðum í sveitarfélaginu og lagt hald á marga muni, sem taldir voru þýfi. Húsráðandi á öðrum staðnum, karlmaður á sextugsaldri, var úrskurðaður í gæsluvarðhald, en fleiri voru þó grunaðir um aðild. Heima hjá manninum fannst m.a. tölvubúnaður, nokkur reiðhjól, húsgögn, gaskútar og mikið af verkfærum. Um svipað leyti upplýsti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjölda innbrota í Kópavogi, en þar var um að ræða innbrot í bæði geymslur og hjólageymslur. Þjófarnir, tveir karlar á fertugsaldri, stálu öllu steini léttara, m.a. reiðhjólum, matvælum og húsmunum af ýmsu tagi.
Í fyrrnefndum málum fór síðan drjúgur tími lögreglumanna í að koma hlutunum aftur í réttar hendur, en það er mjög ánægjulegt í hvert skipti sem það tekst. Samhliða hvatti lögreglan fólk til að sýna árvekni þegar keyptir voru hlutir á sölusíðum á netinu, t.d. að seljandi sýni kvittun fyrir vörunni. Of oft gerist það að þýfi finnst í fórum kaupenda sem bera við að þeir hafi ekki vitað að varan var stolin, vita ekki nafn seljanda, heimilisfang eða annað sem að gagni má koma við rannsókn máls, en finnst engu að síður sárgrætilegt og ósanngjarnt að varan sé af þeim tekin og komið í vörslu réttmæts eiganda. Þá hélt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áfram að minna á forvarnir vegna innbrota á heimili, t.d. að fólk tilkynni um grunsamlegar mannaferðir og skrifi jafnvel hjá sér bílnúmer og lýsingar á fólki ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Jafnframt að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman og upplýsi nágranna um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa brot eða koma í veg fyrir þau.