Rán og fjársvik

Ársskýrsla 2020

Svikahrappar héldu uppteknum hætti árið 2020 og létu einskis ófreistað. Heimsfaraldur breytti þar engu um, þvert á móti reyndu óprúttnir aðilar að nýta kórónuveiruna sér til framdráttar.

Fljótlega eftir að fyrsta tilfellið greindist hérlendis varaði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega við svikum sem voru að eiga sér stað á netinu og í gegnum síma. Þrjótar settu upp svikasíður eða hringdu í fólk og blekktu það til að gefa upp upplýsingar eða greiða fyrir vörur sem voru ekki til. Í tengslum við COVID-19 var reynt að svindla með vörur sem mikil eftirspurn var eftir, t.d. öndunarmaska, handspritt og þess háttar. Þetta átti sér stað víða um heim, en alþjóðalögreglan, Interpol, og alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, greindu frá tilkynningum sem þeim bárust vegna þessa. Almenningur var beðinn um að vera á varðbergi vegna slíkra blekkinga og svika, en því miður höfðu margir þegar látið blekkjast, m.a. á Íslandi. Þetta átti t.d. við um Instagram-síðu þar sem fólk var blekkt að Landlæknisembættið væri að hafa samband gegnum þá síðu. Minnt var á og fólk beðið um að hafa hugfast, þegar rakningarteymi almannavarna var að hafa samband vegna COVID-19 veirunnar, að aldrei væri spurt um lykilorð, notendanöfn eða greiðsluupplýsingar í þeim samtölum.

Tilkynningar um fjársvik voru í kringum 450 og bárust þær yfir allt árið. Fjöldi þeirra gat þó verið breytilegur frá einum mánuði til annars, en í maí bárust t.d. fleiri tilkynningar um netglæpi en venjulega. Þetta var þó í samræmi við þróun mála í mörgum öðrum löndum, en um var að ræða netglæpi eins og fjárfestasvindl, loforð um peninga og hótanir. Vitað var að heimsfaraldurinn ylli mörgum fjárhagsáhyggjum og hinir sömu voru því viðkvæmari fyrir gylliboðum en ella. Tilboð um álitlegar fjárfestingar komu gjarnan á samfélagsmiðlum og oft var frægt fólk sagt hafa stokkið á tækifærið, en raunin var iðulega allt önnur. Loforð um peninga voru allskonar, t.d. arfur eða vinningur af einhverju tagi. Ekkert var þar að baki, aðeins var verið að draga fólk á asnaeyrum og hafa af því fé. Hótanir voru einnig algengar og tengdust ekki endilega COVID-19. Slík mál eru þekkt hjá lögreglu, t.d. hótanir um að upplýsa um fólk sem skoðar klámefni á netinu, en þá segjast þrjótarnir gjarnan hafa myndir því til sönnunar. Þetta eru nánast alltaf innantómar hótanir og lögreglan ráðleggur fólki að láta ekki undan. Hótanirnar eru vissulega óþægilegar enda segjast hinir óprúttnu aðilar hafa komst yfir lykilorð viðkomandi og yfirtekið tölvuna. Þeim sem fyrir þessu verða er bent á að hafa samband með tölvupósti á netfangið cybercrime@lrh.is

Viðbúið er að netglæpum muni fjölga frekar en hitt og því hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagt töluverða áherslu á hafa uppi varnaðarorð um hætturnar sem leynast á netinu. Ófáar tilkynningar þar að lútandi birtust t.d. á fésbókarsíðu embættisins árið 2020. Þar var fólk minnt á að opna ekki grunsamlega tölvupósta eða viðhengi, heldur að eyða þeim strax. Sömuleiðis að notast við tveggja þátta auðkenningu þar sem það er hægt, eins og á samfélagsmiðlum, og svo mætti áfram telja. Oft bárust lögreglunni margar tilkynningar þegar tiltekið svindl var í gangi og þá var upplýsingum um það komið á framfæri við almenning jafnharðan. Dæmi um það voru SMS-skilaboð snemma árs, en í þeim var fólk beðið um að gera ákveðna hluti sem stóðust enga skoðun þegar að var gáð. Á sama tíma tókst svindlurum að greiða fyrir ýmsar vörur og þjónustu með fölsuðum evruseðlum, en þeir herjuðu m.a. á sólarhringsverslanir, leiktækjasali og leigubíla. Svikahröppunum tókst að hafa nokkuð upp úr krafsinu, eða þar til lögreglan komst í málið og tókst að hafa hendur í hári þjófanna.

Fjárdráttarmálum fækkaði mjög mikið frá árinu á undan, en tilkynningum um rán fjölgaði hins vegar. Þau hafa oft verið í kringum 50, en voru um 70 árið 2020. Ránin dreifðust nokkuð yfir árið, en voru þó sýnu flest í ársbyrjun og um haustið. Í þeim ófyrirleitnustu hlutu þolendur einhverja áverka, en í öllum tilvikum var fólki auðvitað illa brugðið við slíka upplifun. Ræningjarnir komust sjaldan á brott með mikil verðmæti eins og jafnan er raunin í málum sem þessum. Brotamennirnir voru sumir ungir að árum, en í október var 18 ára piltur úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu. Sá var grunaður um að hafa framið rán á nokkrum stöðum í borginni á einni og sömu helginni.