Kynferðisbrot og heimilisofbeldi

Ársskýrsla 2020

Tæplega 800 tilkynningar um heimilisofbeldi bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020.

Flestar voru tilkynningarnar í apríl, eða nálægt 80, en fæstar í febrúar, eða um 50. Hina mánuðina voru þær á bilinu 60-70 og því ljóst að mikið verk er enn óunnið, slíkur er fjöldi mála. Heimilisofbeldi er samfélagslegt mein, sem verður að taka á með öllum ráðum. Fyrir nokkrum árum fór embættið, í samvinnu við fleiri aðila, að taka betur á þessum málum. Samhliða skapaðist mikil umræða um heimilisofbeldi og hún hefur haldið áfram. Það er vel, en ætla má að umræðan hafi hjálpað þolendum að stíga fram. Eðli málsins samkvæmt eru málin oft mjög ljót, ef svo má að orði komast. Fjölskyldufaðir í umdæminu kom við sögu í einu þeirra, en málið vakti óhug margra. Sá var grunaður um að hafa beitt fjölskyldu sína, bæði eiginkonu og börn, andlegu og líkamlegu ofbeldi yfir nokkurra ára tímabil. Eftir rannsókn lögreglu var fjölskyldufaðirinn ákærður og síðar dæmdur til fangelsisvistar. Málin voru allskonar, en í einu þeirra hafði gerandinn áður gerst sekur um ofbeldi og hlotið dóm fyrir. Í sumarbyrjun voru aftur höfð afskipti af viðkomandi, sem hafði þá meðal annars veist að móður sinni með hnefahöggum. Maðurinn flúði af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar, en hann var jafnframt sakaður um alvarleg brot gegn öðrum líka. Málsaðilar voru annars á ýmsum aldri, en í einu málanna var ráðist á karl á níræðisaldri. Árásarmaðurinn var sonur sambýliskonu mannsins, sem voru veittir áverkar með hnífi og kertastjaka.

Nálægt 100 nauðganir voru til rannsóknar hjá embættinu árið 2020 og var það ákveðinn viðsnúningur frá árinu á undan. Þá voru nauðgunarmálin vel á annað hundrað, en hvað olli þó þessari breytingu á málafjölda milli ára skal ósagt látið. Í kynferðisbrotadeildinni var engu að síður meira en nóg að gera, því miður, og mörg mál þung í vöfum. Í seinni tíð hafa líka komið fjölmörg mál á borð lögreglu er varða stafrænt kynferðisofbeldi og árið 2020 var engin undantekning í þeim efnum. Hér er átt við dreifingu á kynferðislegu myndefni án samþykkis, en það var vilji yfirvalda að taka á slíkum brotum með skýrum hætti. Umræða um stafrænt kynferðisofbeldi var því töluverð, en auk refsinga þarf líka að huga að fræðslu. Oftlega voru málsaðilar ungir að árum og því ósakhæfir. Um hugarangur þolenda í slíkum málum þarf ekki að hafa mörg orð, en í sumum málanna var enn fremur verið að hóta fólki og kúga.

Rannsóknir fyrrnefndra mála geta oft verið mjög vandasamar, en undanfarin misseri hefur verið reynt að stytta málsmeðferðartíma þeirra og hefur það gengið eftir. Sömuleiðis hefur sérhæfð kærumóttaka hjá embættinu vegna kynferðisbrota gefist vel. Með tilkomu hennar fékkst tækifæri til að veita þolendum meiri þjónustu og hefur það mælst vel fyrir. Á árinu 2020 var jafnframt framkvæmd þjónustukönnun hjá þeim sem leituðu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kynferðisbrota og var mikill meirihluti þeirra, eða 76%, almennt ánægður með þjónustuna sem fékkst hjá embættinu. Þjónustu fyrir þolendur er líka að fá í Bjarkarhlíð, en þangað leituðu meira en 800 manns í fyrsta viðtal. Þar starfar m.a. fulltrúi frá lögreglu og tók hann á móti hátt í fjórðungi af fyrrnefndum hópi, en í Bjarkarhlíð er boðið upp á aðstoð og ráðgjöf. Nokkrir tugir vændismála voru til meðferðar hjá embættinu, en flest þeirra má rekja til sérstakra aðgerða sem ráðist var í seint á árinu. Samhliða voru fjórir handteknir grunaðir um að hafa haft barnaníðsefni í sinni vörslu, en aðgerðirnar, sem beindust að barnaníði á netinu og vændi, voru unnar í samvinnu við Europol og Interpol.