Í ársbyrjun varð mjög alvarlegt slys í Hafnarfirði þegar bifreið fór fram af Óseyrarbryggju og hafnaði í sjónum og sökk.
Tilkynning um slysið barst klukkan rúmlega níu að kvöldi og fór fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á staðinn, en kalt var í veðri og snjóþekja yfir bryggjunni. Þrír piltar á aldrinum 15-17 ára voru í bílnum, en einum þeirra tókst að brjóta rúðu í bílnum og synda að stiga við bryggjuna þar sem vegfarendur aðstoðuðu hann við komast í land. Kafarar björguðu hinum tveimur við erfiðar aðstæður, en grugg var í sjónum og skyggnið eftir því en dýpi á vettvangi var um fimm metrar. Um hálftími leið frá því að tilkynnt var um slysið og þar til báðum piltunum hafði verið bjargað úr sjónum, en nokkrar mínútur liðu milli þess að tókst að færa þá úr bifreiðinni og upp á yfirborðið. Þeir voru síðan fluttir á Landspítalann, en tvísýnt var um líf þeirra. Við tók löng endurhæfing, en björgun piltanna þykir ganga kraftaverki næst og ljóst er að viðbragðsaðilar unnu mikið þrekvirki þetta örlagaríka föstudagskvöld um miðjan janúar.
Reglulega þarf lögreglan að veita ökumönnum eftirför í umferðinni, en þá er iðulega um að ræða ökuþrjóta í misgóðu ástandi, sem eru bæði hættulegir sjálfum sér og öðrum. Ein slík eftirför var farin morgun einn í mars, en þá skapaðist mikil hætta þegar steypubíl var stolið við nýbyggingu á Vitastíg í miðborg Reykjavíkur. Steypubílnum var ekið niður Laugaveg, Bankastræti, um Lækjargötu og eftir Sæbraut uns bíllinn stöðvaðist nálægt Kleppsvegi þar sem eftirförinni lauk. Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en ökumaðurinn, karlmaður um þrítugt, virti öll stöðvunarmerki að vettugi og setti fjölda vegfarenda í mikla hættu með þessu framferði, en maðurinn ók m.a. á öfugum vegarhelmingi á meðan þessu stóð. Hann var handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð, en þar fengust litlar skýringar á athæfi mannsins enda bauð ástand hans ekki upp á slíkt. Maðurinn hafði áður komst í kast við lögin og hafði m.a. verið sviptur ökuleyfi þegar þetta gerðist. Þótt eftirfarir séu nokkuð tíðar er mjög sjaldgæft að þar komi við sögu ökutæki eins og steypubílar.
Á sunnudegi síðla í apríl var hringt í Neyðarlínuna og greint frá svansunga, sem var í miklum vandræðum í Læknum í Hafnarfirði. Óttast var að hann kynni að drukkna og var brugðist hratt við. Fremsti maður Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í slíkum málum var kallaður á vettvang og tókst honum, með mjög góðri aðstoð nokkurra vegfarenda, að bjarga unganum frá dauða. Um tíma var útlitið tvísýnt enda flaut svanurinn á hvolfi með haus og vængi á kafi, en fætur upp úr. Allt fór þó vel að lokum og giftusamleg björgun var staðreynd. Svanurinn, sem gekk undir nafninu Fannar, var líklega um tveggja ára gamall, en til hans hafði sést við gamla Lækjarskóla og var greinilegt að eitthvað hafði verið að angra hann. Fannar var færður til aðhlynningar hjá dýravinum í Kjósinni í þeirri von að hann yrði fljótur að braggast. Dýr hafa oft komið við sögu hjá embættinu í gegnum árin, en málalokin hafa ekki alltaf verið svona ánægjuleg.
Undir lok sumars barst lögreglu tilkynning um líkfund í skóginum neðan við Hólahverfi í Breiðholti. Ekki var hægt að bera kennsl á viðkomandi á vettvangi, en sýnt þótti að sá hinn sami hafði látist fyrir nokkru síðan. Enginn grunur var samt um að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og kennslanefnd ríkislögreglustjóra unnu að rannsókn málsins. Fljótlega kom síðan á daginn að hinn látni var karlmaður á níræðisaldri, búsettur í hverfinu. Líkfundur kemur oft á borð lögreglu, en umrætt mál var sérstakt að því leyti að ekki hafði verið tilkynnt um hvarf mannsins og hans var því ekki leitað. Líkfundurinn vakti því meiri athygli en ella, ef svo má að orði komast, og hreyfði eðlilega við fólki í samfélaginu. Rétt er þó að hafa hugfast að aðstæður fólks eru auðvitað mismunandi og samskipti þess við aðra eru með ýmsum hætti og því ber að varast að fella áfellisdóma í slíkum málum.