Jafnréttismál

Ársskýrsla 2020

Áfram var unnið ötullega að jafnréttismálum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020.

Ýmislegt hefur áunnist í þeim efnum undanfarin misseri, en embættið hefur einsett sér að gera vel í þessum málum sem öðrum. COVID-19 setti þó óneitanlega strik í reikninginn og ekki tókst að ljúka öllu sem að var stefnt. Jafnréttisvísir, verkefni sem snýst um stefnumótun og vitundarvakningu í jafnréttismálum, var áfram á dagskrá. Um er að ræða verkefni sem var unnið með Capacent og hófst árið 2019. Starfsfólk embættisins tók þá þátt í vinnustofum og hugmyndavinnu, en stefnt var að ákveðnum markmiðum á þriggja ára tímabili. Niðurstöður þeirrar vinnu náðist að kynna starfsfólki í byrjun mars, en í kjölfarið tók heimsfaraldurinn yfir og verkefnið, rétt eins og mörg önnur, varð að bíða betri tíma. Á árinu var enn fremur unnið að endurskoðun ferla um einelti og kynferðislega áreitni, m.a. með teymisvinnu og rýni, og þá var lokaúttekt jafnlaunavottunar sömuleiðis á dagskrá. Aftur leiddi COVID-19 til þess að ekki tókst heldur að ljúka þeim verkum. Það verður hins vegar gert þegar betur árar.

Hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu hækkaði lítilega á milli ára, fór úr 30,5% í 32%. Það var jákvætt, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill samt gera enn betur. Og árangurinn fram til þessa er samt umfram það sem að er stefnt í löggæsluáætlun stjórnvalda, sem gildir fyrir tímabilið 2019-2023, svo því sé líka haldið til haga. Enn fremur er horft til hærra hlutfalls lögreglukvenna þegar stjórnunar- og áhrifastöður innan embættisins eru annars vegar. Þar varð mikilvæg breyting þegar lögreglukona var skipuð aðstoðaryfirlögregluþjónn snemma árs, en hún tók við og stýrði einni af fjórum lögreglustöðvunum í umdæminu. Fyrir var önnur lögreglukona í sama hlutverki og því var kynjahlutfall stöðvarstjóranna jafnt í fyrsta sinn hjá embættinu. Um haustið voru tvær lögreglukonur ráðnar til starfa í umferðardeildinni og voru það sömuleiðis töluverð tíðindi. Þær gáfu körlunum ekkert eftir og kom svo sem engum á óvart, en lögreglukonur hafa ekki komið mikið við sögu á þessum vettvangi löggæslunnar í gegnum tíðina.