Unglingar í vanda

Ársskýrsla 2020

Árlega ratar fjöldi unglinga í vandræði af ýmsum ástæðum og oft er lögreglan kölluð til þegar svo er komið.

Hér er átt við þegar unglingar fara að heiman og vilja ekki snúa aftur af einhverjum ástæðum, eða strjúka úr úrræði sem er þegar búið að koma þeim í. Fjölmörg slík mál komu á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020, en leitarbeiðnir vegna þessa voru um 200. Iðulega tekst fljótt að hafa uppi á krökkunum, en í undantekningartilvikum þarf að auglýsa eftir þeim í fjölmiðlum. Slíkt er neyðarúrræði þegar allt annað hefur verið reynt, en við leitir er gripið til ýmissa ráða. Þar má t.d. nefna að notast við flygildi (dróna) og að kalla til sporhund. Hvorutveggja var gert á árinu, en í alvarlegustu tilvikunum er ótti um að viðkomandi kunni að fara sér að voða. Einn lögreglumaður hjá embættinu hefur helgað sig leitarstarfinu, en hann hefur jafnframt notið aðstoðar annarra þegar við á. Því miður hefur umræddur lögreglumaður haft meira en nóg að gera eins og fjöldi leitarbeiðna segir til um.

Þær bárust stöðugt alla mánuði ársins, en þó sýnu meira yfir sumartímann. Leitað var að 63 einstaklingum, 26 stelpum og 37 strákum. Að sumum var leitað einu einni en öðrum ítrekað. Ástand þeirra var misjafnt, en áfengi og fíkniefni komu gjarnan við sögu þótt ekki væri það algilt. Við úrvinnslu málanna var höfð samvinna við barnaverndaryfirvöld og önnur lögregluembætti þegar svo bar undir, en oftar en einu sinni náðu leitirnar út fyrir höfuðborgarsvæðið. Unglingarnir fundust við misjafnar aðstæður, stundum í slagtogi með sér töluvert eldra fólki, en embættið hefur einmitt séð ástæðu til að árétta að það er refsivert að stuðla að því eða aðstoða barn við að koma sér undan forsjá. Þegar leit að unglingi er lokið fer sá hinn sami í flestum tilvikum til síns heima, eða í viðeigandi úrræði. Í mörgum tilvikum þarf þó að grípa til neyðarvistunar á Stuðlum. Af þeim sem koma ítrekað við sögu í málunum getur þurft að leita að þeim reglulega á nokkurra ára tímabili, en þessum afskiptum lýkur við 18 ára aldur. Ekki virðist samt fækka í hópnum því ný andlit taka við af þeim gömlu, en þetta árið komu 39 unglingar við sögu í málaflokknum í fyrsta sinn.