UMFERÐAREFTIRLIT

Ársskýrsla 2022

Segja má að umferðin á höfuðborgarsvæðinu hafi aftur gengið sinn vanagang árið 2022 eftir að heimsfaraldur geisaði á Íslandi árin á undan. Á því tímabili var ýmislegt með öðrum hætti, margir unnu heima og samkomutakmarkanir höfðu sömuleiðis áhrif á ferðir fólks. Árið 2022 var meira eins og landsmenn áttu að venjast og það gilti líka um umferðina. Í ljósi þessa var árið ekki alslæmt þegar rýnt var í slysaskráningu Samgöngustofu, en hún byggir m.a á upplýsingum frá lögreglu. Raunar var árið 2022 ívið betra en árið á undan, en árið 2021 var hins vegar ekki sérlega gott svo því sé haldið til haga. Þá létust fimm í banaslysum á höfuðborgarsvæðinu, en tveir dóu í umferðarslysum árið 2022. Í því var ekki mikil huggun enda er hvert banaslys einu banaslysi of mikið. Að koma alveg í veg fyrir þau er samt mögulegt og rétt að rifja upp að enginn lést í umferðarslysi í umdæminu árið 2019. Sama gerðist líka árið 2014 og fordæmin eru sannarlega til staðar. Umferðarslys verða þó vafalaust ekki umflúin enda ekki að sjá að það dragi úr umferð, heldur þvert á móti. Vegfarendum fjölgar sífellt og erlendir ferðamenn þar að stórum hluta. Kunnáttu þeirra og hæfni var á stundum ábótavant og þá fór illa. Nýjum ferðamátum geta líka fylgt vandamál og þar verður að nefna rafhlaupahjól sérstaklega. Notkun öryggishjálma var sorglega lítil og þegar sömu hjólareiðamenn voru líka undir áhrifum vímuefna var fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur.

Umferðarslys áttu sér stað víða í umdæminu árið 2022, en Miklabraut í Reykjavík kom mjög oft við sögu. Margir árekstrar urðu nefnilega á þrennum gatnamótum Miklubrautar, þ.e. við Grensásveg, Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut. Það kom ekki á óvart enda var gríðarleg umferð um allar þessar götur líkt og áður. Ástæða er enn fremur til að nefna tvenn hringtorg í Hafnarfirði, annað við Kaplakrika og hitt við Setbergshverfið, en á báðum stöðum urðu fjölmörg slys. Gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu í Reykjavík eiga líka heima í þessari upptalningu, en þangað fóru lögreglumenn oft á vettvang umferðarslysa. Alls slösuðust um 550 manns í umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu árið 2022, sem var ámóta fjöldi og árið á undan. Þess má geta að markmið umferðaröryggisáætlunar, sem er fyrir landið allt, er að látnum og alvarlega slösuðum fækki árlega um 5%, en það gekk ekki eftir á árinu 2022.

Umferðareftirlit Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var með hefðbundnum hætti, en áfram var lögð mikil áhersla á sýnileika hennar í umferðinni. Umferðardeild embættisins gegndi þar einna stærsta hlutverkinu við daglegt eftirlit og afskipti af ökumönnum, sem brugðust misjafnlega við. Lögreglumenn allra fjögurra lögreglustöðvanna í umdæminu létu heldur ekki sitt eftir liggja, en umferðarmál voru stór hluti af daglegum verkefnum þeirra árið um kring. Þá var myndavélabíll embættisins óspart notaður. Hann fór víða um umdæmið, en helsta verkefni hans voru hraðamælingar við leik- og grunnskóla. Meira um það í næsta kafla ársskýrslunnar. Framkvæmdir höfðu víða áhrif á umferðina, en lögreglan reyndi að greiða fyrir henni eins og hægt var. Á stundum þurfti líka að grípa til stuttra lokana vegna opinberra heimsókna, en skilningur vegfarenda vegna þessa gat verið takmarkaður. Ekkert vantaði hins vegar upp á skilninginn þegar lögreglan aðstoðaði aðra neyðarbíla við að komast leiðar sinnar, t.d. sjúkrabifreiðar. Aðkoma lögreglu að umferðarmálum var því mikil og áberandi. Að sumri var enn fremur fylgst sérstaklega með ferðalöngum á leið til og frá höfuðborgarsvæðinu og þeim gefin góð ráð um það sem betur mátti fara varðandi ferðavagna og slíkt. Mæltist það ávallt mjög vel fyrir. Heilt yfir voru samskipti við vegfarendur mjög góð og til eftirbreytni.