BANASLYS OG HRAÐAKSTURSBROT

Ársskýrsla 2022

Sárustu tíðindi úr umferðinni árið 2022 voru tvö banaslys í umdæminu. Þau urðu bæði í Reykjavík undir lok ársins, það fyrra síðla í nóvember og hið síðara fyrripartinn í desember. Karlmaður á þrítugsaldri lést í slysinu í nóvember, en það varð að kvöldlagi á horni Barónsstígs og Grettisgötu þar sem varð árekstur rafhlaupahjóls og hópferðabifreiðar. Hinn látni var ökumaður rafhlaupahjólsins. Karlmaður á fimmtugsaldri lést svo í slysinu í desember, sem varð á Höfðabakka, nálægt Árbæjarsafni. Maðurinn var fótgangandi þegar á hann var ekið að næturlagi, en í aðdraganda slyssins var bifreiðinni ekið norður Höfðabakka. Vegfarandinn var fluttur á Landspítalann, en lést þar síðar um nóttina. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsökuðu tildrög slysanna. Á tíu ára tímabili, 2013-2022, lést þrjátíu og einn í umferðarslysum í umdæminu. Engin banaslys urðu á höfuðborgarsvæðinu árin 2014 og 2019, en tvö árin 2013 og 2022. Að því leyti var árið 2022 með skárra móti, ef það má segjast, hvað banaslys varðar í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.

Þúsundir ökumanna voru staðnir að hraðakstri í umdæminu árið 2022 og var það engin nýlunda. Hinir sömu voru sektaðir fyrir vikið og sviptir ökuréttindum ef hraðinn var slíkur. Í grófustu tilvikunum áttu ökumenn ákæru yfir höfði sér. Hraðakstursbrot á höfuðborgarsvæðinu voru alls 15 þúsund. Embættið var m.a. að staðaldri með hraðamyndavélar við ákveðnar fjölfarnar götur og þar var stór hluti brotanna myndaður. Brotahlutfallið var þó jafnan lágt á þessum stöðum og vert að geta þess líka. Sérstakur myndavélabíll embættisins gegndi sömuleiðis mikilvægu hlutverki og myndaði einkum í íbúðarhverfum. Sérstaklega við leik- og grunnskóla. Hraðamælingar myndavélabílsins voru birtar á lögregluvefnum og var það áhugaverð lesning. Raunar hafa allar hraðamælingar myndavélabílsins verið birtar þar um árabil og því má glögglega bera þær saman á milli ára og sjá þróunina. Niðurstöðurnar hverju sinni voru enn fremur sendar sveitarfélögunum til upplýsinga og gátu þau brugðist við ef þeim sýndist svo. Hraðamælingar ársins 2022 gáfu tilefni til þess í ákveðnum tilvikum.

Fleira en hraðinn í umferðinni var áhyggjuefni. Akstur undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna var áfram stórt vandamál. Nálægt 2.300 ökumenn voru samanlagt teknir fyrir þær sakir. Þeir voru ýmist ölvaðir, undir áhrifum fíkniefna eða hvort tveggja. Ívið fleiri voru teknir fyrir fíkniefnaakstur, en fjöldi ölvunarakstra var ekki langt þar undir. Sumir voru ítrekað staðnir að verki, en margir þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en skeyttu því engu. Fjöldi þeirra mála var um 850, en var um 1.000 árið á undan og segir það líka sitt. Margir ökuþóranna sem lögreglan stöðvaði á höfuðborgarsvæðinu höfðu aldrei öðlast ökuréttindi, einhverra hluta vegna. Um 250 sinnum voru ferðir ökumanna stöðvaðar af þeirri ástæðu. Þrátt fyrir umtalsverða hækkun sektar fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar, fækkaði ekki þeim málum í umferðinni. Þau voru rúmlega 700 árið 2022. Sama átti við um þá sem óku gegn rauðu ljósi, en nálægt 550 ökumenn gerðust sekir um það og var málafjöldinn svipaður á milli ára. Um 1.000 sinnum voru höfð afskipti af ótryggðum og óskoðuðum ökutækjum í umdæminu og voru skráningarnúmer þeirra fjarlægð. Sektir vegna umferðarlagabrota voru greiddar í ríkissjóð, svo því sé haldið til haga. Það var samt ekki góð búbót þegar umferðaröryggi var annars vegar og alvarleg slys á fólki hlutust af.