UNGLINGAR Í VANDA

Ársskýrsla 2022

Leitarbeiðnum að unglingum fækkaði lítillega á milli ára og voru rétt undir 150. Ástandið í málaflokknum var því að einhverju leyti betra, en leitarbeiðnir voru t.d. ríflega 200 árið 2020 og hátt í 300 árið 2018. Sveiflur hafa því verið miklar, en 150 leitarbeiðnir, eins og bárust árið 2022, er engu síður ansi mikið. Að jafnaði voru því nokkrar leitir í hverri viku og sýnir það umfang vandans sem við er að etja. Einn lögreglumaður hjá embættinu hefur haft það að aðalstarfi frá því síðla árs 2014 að hafa uppi á krökkum í þessari stöðu og koma þeim í öruggt skjól. Sá hefur haft meira en nóg að gera öll árin, því miður, en hinn sami nýtur aðstoðar annarra lögreglumanna þegar svo ber undir. Leit er ávallt unnin í samvinnu við barnavernd. Hún hefst í kjölfar þess að barnavernd viðkomandi sveitarfélags óskar eftir aðstoð lögreglu við að hafa uppi á unglingi, sem hefur ekki skilað sér heim eða hefur strokið úr úrræði á vegum barnaverndarnefndar.

Ýmsum ráðum er beitt til að finna krakkana og þar koma t.d. símagögn oft að gagni. Lögregla nýtir sér sömuleiðis flygildi (dróna) og sporhunda, en hún fær enn fremur aðstoð björgunarsveita í málum þar sem óttast er að viðkomandi geti farið sér að voða. Sjaldan er lýst eftir unglingum í fjölmiðlum, enda í lengstu lög reynt að hafa uppi á krökkunum með öðrum hætti. Oftast tekst það frekar fljótt, en í undantekningartilfellum getur það þó tekið nokkra sólarhringa. Þegar unglingar finnast er ástand þeirra misjafnt, stundum eru þeir undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Unglingarnir eru oftast færðir til síns heima þegar leit lýkur, en stór hluti þeirra fer þó í neyðarvistun á Stuðlum.

Alls komu 46 einstaklingar við sögu í þeim leitarbeiðnum sem bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2022. Strákar voru í meirihluta, eða 26, en stelpur voru 20. Margsinnis var leitað að sumum þeirra, ekki bara árið 2022 heldur einnig árin á undan. Við 18 ára aldur lýkur hins vegar þessum afskiptum af þeim, en í staðinn bætast aðrir í hópinn sem leita þarf að. Árið 2022 var leitað að 30 einstaklingum í fyrsta sinn. Leitarbeiðnir voru færri framan af árinu, en fjölgaði um vorið og sumarið. Flestar voru þær samt að loknu sumri og fram að desember. Oftast var leitað að unglingum í september, eða 20 sinnum, og sjaldnast í mars, eða 7 sinnum. Sá yngsti sem leitað var að var 11 ára og því réttara að tala um barn, en ekki ungling í því tilviki.