Þrír létust í hörmulegum bruna í vesturbæ Reykjavíkur í júní, en á fimmtudegi, seint í mánuðinum, barst tilkynning um kaffileytið um eld í þriggja hæða húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu.
Fjölmennt lið viðbragðsaðila hélt þegar á vettvang, en þegar þangað var komið var ljóst að um mikinn eld var að ræða og allar aðstæður mjög erfiðar. Á leiðinni þangað höfðu þegar borist upplýsingar um að eldurinn væri á miðhæð hússins og í þaki þess, og fólk væri í sjálfheldu á efstu hæðinni. Eldurinn breiddist hratt út í þessu gamla húsi og þurftu einhverjir íbúanna að stökkva út til að reyna að bjarga sér, en því miður náðu ekki allir að forða sér úr húsinu. Fjórir voru fluttir á slysadeild, en einn þeirra lést. Við slökkvistarf fundust tveir aðrir látnir í húsinu, en þremenningarnir, tvær konur og einn karl, voru öll á þrítugsaldri. Slökkvistarfið tók töluverðan tíma, en mikinn reyk lagði frá húsinu og voru íbúar í nágrenninu beðnir um að loka gluggum hjá sér. Eins og jafnan áður dreif að fólk til að fylgjast með aðgerðum á vettvangi, en tveir voru handteknir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.
Lögregluna grunaði fljótt að um íkveikju af mannavöldum væri að ræða, en í bráðabirgðaskýrslu kom fram að eldsupptakastaðir voru fleiri en einn og á aðskildum svæðum. Því var nánast hægt að útiloka að eldurinn hafi kviknað vegna gáleysis. Skömmu eftir að tilkynnt var um eldinn var einn íbúanna í húsinu, karlmaður á sjötugsaldri, handtekinn annars staðar í hverfinu. Sá var í annarlegu ástandi, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir og síðar ákærður fyrir verknaðinn. Rannsókn leiddi í ljós að hann kveikti eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð hússins og jafnframt á tveimur öðrum stöðum á gólfi í sameiginlegu rými, en þrettán aðrir voru í húsinu þegar þetta átti sér stað. Með því olli hann almannahættu, en eldurinn breiddist hratt út og var húsið nánast alelda þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Maðurinn var dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.
Embættið rannsakaði fleira bruna á árinu, en í mars var karlmaður um þrítugt úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu eftir eldsvoða á skemmtistað í miðborginni. Maðurinn, sem hafði áður komið við sögu lögreglu, var ákærður fyrir að brjótast þar inn, stela ýmsum hlutum og kveikja síðan í. Seinna á árinu, eða í október, varð eldsvoði í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi, en töluverðar skemmdir urðu á húsnæðinu, m.a. eyðilögðust bifreiðar sem voru þar innandyra. Verið var að logsjóða þegar eldurinn kom upp. Og í sama mánuði kviknaði líka í íbúðarhúsnæði í Kópavogi. Þar varð mikið tjón, ekki síst tilfinningalega, en sex hundar drápust í brunanum. Talið var að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstæki.