Banaslys og hraðakstursbrot

Ársskýrsla 2020

Fjórir létust í umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 og er það þyngra en tárum taki, en fjöldi látinna í umferðinni hefur sveiflast töluvert.

Ekkert banaslys varð í umdæminu árið á undan, en 2018 létust sex í umferðarslysum. Þegar litið er lengra aftur í tímann kveður við það sama, þ.e. sveiflur á milli ára, en árið 2014 lést þó enginn í umferðarslysi á höfuðborgarsvæðinu. Dæmin um góðan árangur í umferðinni eru því til staðar og vonandi eiga þau eftir að verða fleiri í framtíðinni. Árið 2020 var hins vegar slæmt hvað þetta varðar, en fyrsta banaslysið í umdæminu varð fyrripartinn í janúar þegar karlmaður á fimmtugsaldri lést í hörðum árekstri fólksbíls og snjóruðningstækis á Reykjanesbraut, á móts við álverið í Straumsvík. Maðurinn ók fólksbílnum, en bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt. Um tveimur mánuðum síðar, í mars, lést karlmaður um þrítugt eftir þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut, nálægt Orkunni í Kópavogi. Hann var farþegi í einum bílanna og lést á sjúkrahúsi nokkrum dögum eftir slysið. Og loks létust tveir, karl og kona, í árekstri bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, norðan Grundarhverfis, undir lok júní. Hin látnu, ökumaður og farþegi á bifhjólinu, voru bæði á sextugsaldri, en ökutækin voru að koma úr gagnstæðri átt.

Þrátt fyrir minni umferð á höfuðborgarsvæðinu voru þúsundir umferðarlagabrota skráð hjá embættinu árið 2020. Það var kannski viðbúið, en þess verður þó að geta að brotunum fækkaði allnokkuð frá árinu á undan. Sem fyrr voru hraðakstursbrotin þar mjög áberandi, en rúmlega 22 þúsund ökumenn voru staðnir að hraðakstri í umdæminu. Brotin áttu sér stað víða, jafnt á stofnbrautum sem og við grunnskóla. Þar má nefna að á nokkurra vikna tímabili á haustmánuðum, eftir að skólar tóku aftur til starfa eftir sumarleyfi, voru fleiri hundruð ökumenn staðnir að hraðakstri við skólana í umdæminu. Um 2.000 ökutæki voru vöktuð við þetta eftirlit og fékk hátt í þriðjungur ökumannanna sekt fyrir hraðakstur. Um var að ræða götur þar sem leyfður hámarkshraði er 30, en meðalhraði hinna brotlegu var 43 km/klst. Fjölmargir óku þarna um á yfir 50 km hraða, en sá sem hraðast ók mældist á 65. Ökumenn áttu líka í vandræðum með að virða hámarkshraða við vinnusvæði, en í apríl var ökumaður staðinn að hraðakstri á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Sá ók á 98 km hraða yfir Leirvogsá, en þar var hámarkshraði lækkaður í 30 vegna framkvæmda. Ökumaðurinn átti ákæru yfir höfði sér, en á vettvangi voru áberandi skilti til að vekja athygli ökumanna á leyfðum hámarkshraða. Margir ökumenn brutu líka af sér á Garðahraunsvegi í Garðabæ, en á árinu var götunni breytt í botnlangagötu og leyfður hámarkshraði lækkaður í 30. Allnokkrir í hópi hinna brotlegu á Garðahraunsvegi áttu einnig sviptingu ökuleyfis yfir höfði sér, slíkur var hraðinn.

Nálægt 1.500 ökumenn voru teknir fyrir fíkniefnaakstur árið 2020 og rúmlega 750 fyrir ölvunarakstur. Brotunum fækkaði mikið frá fyrra ári, en árin þar á undan hafði þeim fjölgað verulega, sérstaklega fíkniefnaakstur. Hátt í 500 ökumenn voru sektaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og um 900 fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar. Sektin fyrir að aka gegn rauðu ljósi var hækkað í ársbyrjun og sekt fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar var hækkuð margfalt á vormánuðum 2018, eða úr 5 í 40 þúsund. Sú staðreynd virðist þó ekki skipta alla ökumenn máli. Sama má kannski segja um ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en héldu samt áfram akstri. Á árinu voru 1.200 tilvik þar sem lögreglan stöðvaði för slíkra ökumana. Þá voru hátt í 700 ökumenn sem reyndust ekki hafa gild ökuréttindi þegar afskipti voru höfð af þeim.