Umferðareftirlit

Ársskýrsla 2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu var með töluvert öðrum brag á árinu 2020 enda fór Ísland ekki varhluta af heimsfaraldrinum frekar en aðrar þjóðir.

Umferðin dróst því mikið saman enda voru landsmenn miklu minna á ferðinni þetta árið vegna aðstæðna og ferðamenn voru vart sjáanlegir. Umferðarmálin voru samt ofarlega á baugi, en á 112-deginum var sjónum beint að öryggi fólks í umferðinni. Varað var sérstaklega við því að nota síma og önnur snjalltæki undir stýri og var ekki vanþörf á, en þeir sem það gera eru margfalt líklegri til að valda umferðarslysum eins og rannsóknir sýna. Þeir sem ganga og hjóla voru hvattir til að nota endurskin og vera þannig vel sýnilegir þeim sem fara um á bílum. Hvorutveggja mikilvæg skilaboð, sem er brýnt að halda stöðugt á lofti. Og það var fleira sem vegfarendur þurftu að hafa hugfast, en í ársbyrjun tóku gildi ný umferðarlög. Í þeim er t.d. kveðið á um að þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar. Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar var annað atriði sem tók breytingum, en áður var miðað við 15 ára aldur. Í nýju umferðarlögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum, en undan því hefur verið talsvert kvartað til lögreglu í gegnum tíðina. Sekt fyrir að aka gegn rauðu ljósi var hækkuð úr 30 í 50 þúsund krónur og þá hefur verið lögfest að ökumaður í ytri hring í hringtorgi skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Fleiri breytingar er að finna í nýju umferðarlögunum en ekki er unnt að telja þær allar upp hér.

Umferðarslys voru áfram daglegt brauð í umdæminu, en þeim fækkaði samt frá árinu á undan og voru það góð tíðindi. Samanburður talna frá árinu 2020 við önnur ár er þó mjög erfiður og verður að taka með fyrirvara enda aðstæður allt aðrar vegna COVID-19, sem hafði mjög mikil áhrif á umferðina rétt eins og annað í þjóðlífinu. Embættið hefur lengi birt vikulegar samantektir um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu, en í þeim koma ákveðnar fjölfarnar götur ítrekað við sögu. Þar á meðal er Miklabraut, en slys hafa löngum verið tíð á gatnamótum hennar við Grensásveg, Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut. Sama má segja um þrenn gatnamót Reykjanesbrautar, þ.e. við Lækjargötu/Hlíðarberg, Bústaðaveg og Fjarðarhraun. Gatnamótum Fjarðarhrauns, Flatahrauns og Bæjarhrauns má einnig bæta við upptalninguna, en hér er líka vísað til upplýsinga frá Samgöngustofu. Flest slysanna urðu á svokölluðum álagstímum, þ.e. þegar fólk fer til og frá vinnu og skóla, en slysin eru enn fremur fleiri eftir hádegi heldur en fyrir. Fjöldi þeirra er jafnframt misjafn eftir vikudögum, færri í byrjun vikunnar og fleiri eftir því sem á hana líður.

Ýmsar vegaframkvæmdir stóðu yfir á árinu og leiddi það stundum til óhjákvæmilegra tafa í umferðinni. Flestir vegfarendur sýndu því skilning enda voru framkvæmdirnar til bóta þegar uppi var staðið. Á meðal stórra vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu var breikkun Reykjanesbrautar á móts við Vellina og Áslandið í Hafnarfirði og breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ. Yfir sumarmánuðina voru götur fræstar og malbikaðar  víðs vegar í umdæminu eins og jafnan áður. Þessu fylgdu tímabundnar lokanir og óþægindi eftir því.  Þegar mest var mátti lesa tilkynningar um framkvæmdir nánast daglega á fésbókarsíðu embættisins, en ávallt hefur verið lögð áhersla á að miðla þeim upplýsingum til vegfarenda. Sérstaklega þegar um fjölfarnar götur er að ræða og hafa lesendur síðunnar verið þakklátir fyrir upplýsingarnar.