ÓVENJULEG VERKEFNI

Ársskýrsla 2022

Strokufanga er sjaldan leitað, enda ekki hlaupið að því að flýja úr fangelsi. Sú var þó raunin í apríl en þá var gerð mikil leit að karlmanni um tvítugt sem strauk úr haldi yfirvalda. Maðurinn var reyndar ekki í fangelsi þegar atvikið gerðist, en hann hafði verði færður fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar tókst fanganum að komast undan með því að taka á sprett bakvið dómshúsið og hlaupa út í frelsið í miðborginni. Hófst strax áköf leit að manninum, auk þess sem skorað var á hann að gefa sig fram. Það skilaði litlu og var því auglýst eftir manninum í öllum fjölmiðlum. Strokið vakti mikla athygli, en fanginn fór huldi höfði í á þriðja sólarhring. Svo fór þó að hann var handtekinn í sumarbústað á höfuðborgarsvæðinu, en þá var hringurinn farinn að þrengjast verulega. Fimm aðrir voru jafnframt handteknir í tengslum við leitina, en rannsókn lögreglu að meintum þætti þeirra beindist að því hvort brotamanni hafi verið veitt aðstoð við að komast hjá handtöku. Fanginn var hins vegar fluttur aftur í fangelsi, en þar beið hans enn lengri vist.

Þau voru af ýmsum toga verkefnin sem lögreglumenn sinntu á einni helgarvaktinni seint í mars, en þá rötuðu bæði menn og dýr í vandræði og þörfnuðust aðstoðar. M.a. var tilkynnt um gæs við Hringbraut í Reykjavík, en óttast var að hún hefði orðið fyrir bíl. Haldið var á vettvang, en fuglinn reyndist augljóslega hafa orðið fyrir hnjaski af einverju tagi. Eftir vangaveltur var afráðið að koma gæsinni aftur „til síns heima“ og hún því færð á Reykjavíkurtjörn. Síðar á vaktinni var svo athugað aftur með „sjúklinginn“ sem hafði þá synt út á tjörnina og náð að koma sér makindalega fyrir þar í eyju. Var það talin vísbending um að gæsin myndi ná að braggast vel á nýjan leik.

Eitthvað var hann illa fyrir kallaður maðurinn sem lagði leið sína á lögreglustöðina við Hverfisgötu að morgni annars dags jóla. Sá setti þar inn poka í mannlaust anddyri og kveikti í honum, en í pokanum var flaska með vökva sem líktist lampaolíu eða grillvökva. Af þessu varð nokkur eldur, sem glöggur varðstjóri tók eftir í myndavélakerfi hússins og brást strax við. Hann greip handslökkvitæki, hraðaði sér á vettvang og réði þar niðurlögum eldsins fljótt og vel. Illa hefði getað farið ef ekki hefði komið til snarræði varðstjórans, en skemmdir í anddyrinu reyndust óverulegar. Í gegnum árin hafa ýmsar skemmdir verið unnar á lögreglustöðinni þótt fátítt sé að reynt sé að kveikja í henni. Sumum er greinilega uppsigað við lögregluna, en ekki er samt vitað hvað brennuvarginum gekk til þessi jólin né hvað hann átti sökótt við laganna verði. Málið var tilkynnt til embættis héraðssaksóknara sem fór síðan með rannsókn þess.

Lögreglan veitti ökumanni bifreiðar eftirför snemma sumars eftir að sá virti að vettugi stöðvunarmerki hennar. Ökumaðurinn ók m.a. Reykjanesbraut til norðurs í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog á miklum hraða uns för hans var stöðvuð á móts við Stekkjarbakka í Reykjavík. Þrjú ökutæki skemmdust við eftirförina, en engin slys urðu á fólki og mildi þótti að ekki fór verr. Bifreiðinni var ekið langt yfir leyfðan hámarkshraða í mikilli umferð og skapaði ökumaðurinn, karlmaður um fimmtugt, gríðarlega hættu með þessu framferði. Hann var handtekinn á vettvangi og færður á lögreglustöð, en viðkomandi var jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Flestir ökumenn láta sér segjast þegar eftirförin er hafin og tilvik sem þetta er því undantekning sem betur fer.