Rannsóknir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi eru sífellt að verða umfangsmeiri og tímafrekar eftir því.
Brotin geta verið margþætt, en þau snúa m.a. að fíkniefnasölu og peningaþvætti svo fátt eitt sé nefnt. Brotahóparnir svífast einskis og því er mikilvægt að lögreglan sé vel í stakk búin að takast á við þennan málaflokk sem aðra. Undanfarin misseri hefur verið lögð mikil áhersla á þjálfun starfsmanna lögreglunnar svo hún sé betur fær um að eiga við skipulagða brotastarfsemi. Vel hefur gengið í þeim efnum, en á árinu 2020 voru til rannsóknar mörg mál sem snéru einmitt að þessum málaflokki. Strax í ársbyrjun, eða um miðjan janúar, voru sex handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar embættisins, sem snéri m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti. Rannsókn málsins hafði staðið yfir í töluverðan tíma og fylgst var með ferðum sumra sakborninganna. Þegar látið var til skarar skríða gegn þeim við sumarhús í útjaðri höfuðborgarsvæðisins reyndu hinir sömu að komast undan. Við tók stutt eftirför uns bifreið mannanna hafnaði utan vegar. Í fórum þeirra fannst ætlað amfetamín og í sumarhúsinu var lagt hald á tæki og búnað, sem lögreglan taldi hafa verið notaðan til að framleiða amfetamín. Um viðamikla aðgerð var að ræða, en í kjölfarið var ráðist í margar húsleitir víða í umdæminu og í þeim tók lögreglan í sína vörslu fíkniefni, vopn og fjármuni. Við rannsóknina var lagt hald alls á 13,5 lítra af amfetamínbasa, auk tilbúinna fíkniefna og mikið af sterum.
Nokkrum vikum síðar voru fimm handteknir í óskyldu máli, sem snéri einnig að framleiðslu fíkniefna. Þar kom einnig við sögu sumarhús, en á Vesturlandi, en sakborningarnir voru handteknir þegar þeir voru á ferð á tveimur bifreiðum í og við Hvalfjarðargöng. Fimmmenningunum, sem sátu í gæsluvarðhaldi um tíma, var gefið að sök að hafa staðið að framleiðslu amfetamíns í áðurnefndu sumarhúsi og hafa haft fíkniefni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni. Húsleitir voru framkvæmdar á nokkrum stöðum vegna rannsóknarinnar, en lagt var hald á talsvert af fíkniefnum í tengslum við málið. Um töluverða lögregluaðgerð var að ræða, en við hana naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar annarra lögregluembætta. Slíkt er alvanalegt í málum sem þessum, auk þess sem lögregluliðin eiga líka í góðri samvinnu við tollyfirvöld þegar innflutningur fíkniefna er annars vegar. Alls voru haldlögð rúmlega 24 kíló af amfetamíni á árinu, en hátt í helmingur þess fannst við húsleit í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu í maí. Til viðbótar tók embættið í sína vörslu amfetamínbasa, sem má gróflega áætla sem 38 kíló af amfetamíni í smásölu.
Skráðum fíkniefnabrotum í umdæminu fækkaði töluvert frá árinu á undan, en rúmlega 1.100 brot voru skráð þetta árið. Eins og áður kom marijúana oft við sögu, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagði rúmlega 42 kíló af því. Kannabisræktanir var víða að finna, en í nóvember stöðvuðu lögreglumenn mjög umfangsmikla kannabisræktun í húsi í Reykjavík. Þar var lagt hald á um 1.300 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Um svipað leyti fannst hátt í hálft kíló af kókaíni, sem hafði verið grafið í holu í Heiðmörk. Það var útivistarmaður sem tilkynnti um sérkennilegan hlut á þessum slóðum, en hluturinn reyndist síðan innhalda kókaín. Það var þó ekki síst hundi mannsins að þakka að svona vel fór og fíkniefninu enduðu hjá lögreglunni. Nokkrum vikum síðar var aftur lagt hald á ámóta magn af kókaíni, en það hafði verði sent til landsins með hraðsendingu. Einn var handtekinn vegna málsins. Af öðrum fíkniefnum sem voru tekin í vörslu lögreglu árið 2020 má nefna metamfetamín, hass, LSD og e-töflur (MDMA).