SKOTÁRÁSIR

Ársskýrsla 2022

Skotárásir eru fátíðar á Íslandi og því verður fólki illa brugðið þegar þær eiga sér stað. Og þannig var því farið þegar skotið var á karl og konu á bifreiðastæði í Grafarholti í Reykjavík eina fimmtudagsnóttina í febrúar. Lögreglan brást hratt við tilkynningu um málið og hafði uppi mikinn viðbúnað eins og venja er í jafn alvarlegu máli. Hin slösuðu voru færð á slysadeild, en konan fékk skot í kviðinn og karlinn í fótlegg. Þau voru ekki í lífshættu, en meiðsli hennar voru sýnu alvarlegri og þurfti konan að gangast undir aðgerð. Áköf leit var gerð að árásarmanninum og var hann handtekinn fljótlega. Sá hafði komið á vettvang í félagi við annan mann, en sá síðarnefndi ók bifreið sem árásarmaðurinn skaut úr og á fólkið. Skammbyssa var haldlögð í þágu málsins og var hún ennfremur send vopnadeild dönsku lögreglunnar, sem hluti af réttarfræðilegri rannsókn þess. Byssan reyndist stolin og var hún skráð sem slík í kerfi lögreglunnar. Árásarmaðurinn var á þrítugsaldri, líkt og maðurinn sem hann skaut á og konan litlu yngri. Hún og ársásarmaðurinn voru fyrrum kærustupar. Hann gekkst við að hafa ætlað að skaða manninn, en ekki konuna. Svo fór að árásarmaðurinn var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og sérlega hættulega líkamsárás og var dæmdur í héraðsdómi í átta ára fangelsi.

Rannsókn skotárásarinnar í Grafarholti var enn í fullum gangi þegar, aðeins þremur sólarhringum síðar, var aftur tilkynnt um skotárás. Að þessi sinni var vettvangurinn bílastæðahús í miðborg Reykjavíkur. Þetta átti sér stað skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags þegar skemmtanalífið var í algleymingi og margir voru á ferli. Viðbúnaðurinn var eftir því og fjölmennt lið lögreglu fór þegar á staðinn, en sá sem fyrir árásinni varð náði sjálfur að tilkynna um verknaðinn. Árásarmaðurinn, karlmaður um tvítugt, var handtekinn í kjölfarið, en hann var þá nýlega laus úr fangelsi. Svo virðist sem árásármaðurinn hafi mælt sér mót við brotaþola, en ekki er vitað hvað hann átti sökótt við þann sem var skotinn. Nokkrum skotum var hleypt af á vettvangi og hæfði eitt þeirra brotaþola í brjóstkassann. Skotið fór í gegnum lungað og út um aftanverðan líkamann. Áverkarnir voru alvarlegir og hending að ekki fór verr. Árásarmaðurinn var talinn hafa haft beinan ásetning um að bana brotaþola, en við verknaðinn notaði hann þrívíddarprentaða byssu með hljóðdeyfi. Árásarmaðurinn var dæmdur í héraðsdómi í átta ára fangelsi. Skotárásin í miðborginni vakti sömuleiðis óhug hjá fólki enda árásin í Grafarholti þá nýafstaðin, en málin tengdust ekki. Þrátt fyrir skotárásirnar taldi lögreglan að almenningi væri ekki hætta búin og að um einstakt mál væri að ræða í báðum tilfellum.

Enn ein skotárásin var síðan gerð að morgni dags í júní í norðurbæ Hafnarfjarðar þegar karlmaður á sjötugsaldri skaut með riffli á tvo bíla af svölum íbúðar sinnar í fjölbýlishúsi. Feðgar voru í öðrum bílanna, sem voru kyrrstæðir á bifreiðastæði, og máttu þeir teljast stálheppnir að slasast ekki, eða þaðan af verra, en nokkur skot hæfðu báða bílana. Leikskóli er handan bifreiðastæðisins og var starfsfólki og börnum þar gert að halda sig innandyra á meðan aðgerðum lögreglu stóð, en jafnframt var lokað fyrir alla umferð í nágrenninu. Ríkti umsátursástand á vettvangi í nokkra klukkutíma, eða uns samningamenn lögreglu fengu byssumanninn til að leggja niður vopn og gefa sig fram. Sá var haldinn ranghugmyndum og var síðar gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Mjög mikil hætta var á ferð í Hafnarfirði og mildi að enginn lést, rétt eins og í skotárásunum í Reykjavík.