LÍKAMSÁRÁSIR

Ársskýrsla 2021

Fjöldi líkamsárása var til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2021, en ofbeldisbrot í umdæminu voru annars um 1.300. Meiri háttar líkamsárásir töldust í kringum 200, sem er ámóta og árið á undan, en minni háttar líkamsárásum fjölgaði lítillega á sama tímabili, en þær voru nálægt 1.100. Fjöldi ofbeldisbrota á höfuðborgarsvæðinu hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár og vitaskuld vonbrigði að þeim hafi ekki fækkað. Lengi hefur verið horft  til fækkunar ofbeldisbrota í umdæminu, en það hefur ekki gengið eftir sem skyldi. Ýmsar skýringar kunna að vera fyrir hendi og það breytir líka heildarmyndinni að þeim sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni hefur fjölgað mikið á starfstíma embættisins. Hvort árangurinn sé ásættanlegur í því ljósi skal ósagt látið enda er ofbeldi alltaf ólíðandi. Eins og áður dreifðust tilkynningar um líkamsárásir í umdæminu nokkuð jafnt yfir árið. Flesta mánuðina voru þær í kringum 100, en í mars, maí og október voru um 130 líkamsárásir tilkynntar til lögreglu. Hér er átt við allar líkamsárásir, en þegar greint var á milli minni háttar og meiri háttar líkamsárása, mátti sjá að fjöldi þeirra alvarlegu var meiri frá miðju sumri og til haustloka. En frá júlí til október var tilkynnt um 20 eða fleiri meiri háttar líkamsárásir í öllum fjórum mánuðum tímabilsins.

Líkamsárásarmálið sem vakti einna mesta athygli, og þar með óhug, átti sér hins vegar stað í ársbyrjun, en í janúar var lögreglan kölluð út vegna slagsmála í Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Þegar hún kom á vettvang ríkti ringulreið á vettvangi, en átök höfðu brotist út bæði inni í skólanum og utan hans. Svo virðist sem misklíð á milli tveggja pilta hafi leitt til þessa, en fleiri síðan blandast í málið sem vatt upp á sig. Að minnsta kosti sex þurftu að leita aðhlynningar á slysadeild, mismikið slasaðir, en hafnaboltakylfa, hnífur og verkfæri komu við sögu í átökunum. Árásin átti sér stað í hádeginu á virkum degi og því var skólastarf í fullum gangi, en nemendum og starfsfólki Borgarholtsskóla var eðlilega mjög brugðið eftir hana. Lögreglan hafði töluverðan viðbúnað á vettvangi vegna málsins, en daginn eftir árásina var sá sem talinn var hafa haft sig mest í frammi úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Svo fór að fimm piltar voru ákærðir vegna málsins, en þrír þeirra voru yngri en 18 ára.

Margir fleiri áttu eftir að sitja í gæsluvarðhaldi vegna líkamsárása áður en árið var úti, en degi eftir árásina í Borgarholtsskóla var karlmaður stunginn í íbúð í miðborginni. Sá hafði kvartað við nágranna vegna hávaða frá íbúð þeirra, en þeir brugðist ókvæða við og lagt til hans með eggvopni. Einn fyrrnefndra nágranna tilkynnti reyndar um málið til lögreglu, en þegar hún kom á vettvang var hann margsaga. Í kjölfarið var nágranninn handtekinn ásamt tveimur öðrum, en allir þrír voru síðan úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknarinnar. Árásarþolinn var fluttur á slysadeild, en hann var með stunguáverka víða, auk opins beinbrots á handlegg. Eggvopn héldu áfram að koma við sögu, en nokkrum mánuðum síðar var karlmaður stunginn ítrekað á veitingastað í miðborginni. Atlagan var lífshættuleg og raunar mildi að ekki fór verr. Brotaþoli þekkti árásarmanninn, en þeir höfðu mælt sér mót á staðnum þar sem sá síðarnefndi missti stjórn á skapi sínu, greip til hnífs og stakk þann fyrrnefnda mörgum sinnum. Þegar lögreglan kom á vettvang voru báðir mennirnir á bak og burt, en brotaþoli hafði leitað á slysadeild og þar fékkst betri sýn á málið. Árásarmaðurinn gaf sig fram daginn eftir, en hann var síðar ákærður fyrir verknaðinn.

Og á haustmánuðum kom til átaka tveggja unglingspilta í Reykjavík, sem lauk með því að annar stakk hinn með hnífi. Svo virtist sem upptökin mætti rekja til ósannra sögusagna, en mörg dæmi eru um að aðilar telji sig þurfa að grípa til eigin ráða til að jafna sinn hlut eða koma fram einskonar hefndum. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra. Að því sögðu er það mikið áhyggjuefni hversu margir, einkum ungir karlmenn, grípa til eggvopna og virðast tilbúnir að vinna öðrum skaða með þeim. Um skelfilegar afleiðingar þess þarf ekki að hafa mörg orð.