COVID-19

Ársskýrsla 2021

Kórónuveiran hélt áfram að gera landsmönnum lífið leitt, en heimsfaraldurinn var ekkert í rénun þegar árið 2021 gekk í garð. Viðbúið var að COVID-19 myndi valda miklum usla annað árið i röð og það varð líka raunin. Samkomutakmarkanir voru enn til staðar og tóku breytingum eftir ástandinu hverju sinni. Áhrifin á þjóðlífið voru mikil og samkomuhald var enn svipur hjá sjón frá því sem áður var. Þrátt fyrir dökkt útlit voru þó öllu bjartari teikn á lofti þegar hingað fóru að berast bóluefni. Það var mikið verk og tímafrekt að bólusetja þjóðina, en þar gegndi Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mikilvægu hlutverki ásamt fleiri viðbragðsaðilum. Laugardalshöll varð miðstöð bólusetninga á höfuðborgarsvæðinu og þangað streymdu tugþúsundir landsmanna. Þegar yfir lauk á árinu 2021 þurfti þrjár sprautur á hvern einstakling í jafnmörgum heimsóknum, svo að tilskildum árangri yrði náð í baráttunni gegn COVID-19. Bólusetningar stóðu því yfir í Laugardalshöll mánuðum saman, með einhverjum hléum þó, en hlutverk lögreglu var bæði að standa þar vaktina og eins að koma bóluefninu á staðinn.

Þrátt fyrir margháttaða erfiðleika sem fylgdu heimsfaraldrinum má samt segja að þjóðin var betur undirbúin að takast á við hann heldur en árið á undan. Myndast hafði reynsla sem kom að góðum notum og það átti við um lögregluna eins og aðra. Vandamálin voru engu að síðar mörg og stór og áfram voru sóttvarnabrot á forgangslista embættisins svo það sé nefnt sérstaklega. Tilkynningar sem bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um möguleg brot gegn reglum um sóttkví og einangrun og brot gegn sóttvörnum skiptu hundruðum. Þegar árið 2021 var úti reyndust tilkynningarnar vera nálægt 900 og margir áttu því erfitt með sætta sig við þær takmarkanir sem landsmönnum voru settar á meðan faraldrinum stóð. Nokkrir rekstraraðilar veitingastaða í miðborginni voru í þeim hópi, en í blaðaviðtali sökuðu þeir lögregluna um að mistúlka reglur og hafa í hótunum við þá. Ummælum þeirra var snarlega vísað á bug og það undirstrikað að lögreglan ynni samkvæmt túlkun heilbrigðisráðuneytisins á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Í miðborginni, sem annars staðar, væri beitt meðalhófi og veitingamönnum raunar leiðbeint um það sem betur mætti fara ef svo bæri undir. Núningur kom upp í fleiri tilfellum á árinu, en heilt yfir gengu samskiptin mjög vel fyrir sig og fólk virti almennt þau boð og bönn sem yfirvöld gripu til í baráttunni gegn COVID-19.

Þegar litið var nánar til viðhorfa íbúa í umdæminu til aðgerða Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við að framfylgja reglum og takmörkunum vegna COVID-19 er áhugavert að rýna í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ, sem framkvæmd var í maí 2021. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum íbúum, eða 75%, studdu aðgerðirnar. Stuðningurinn var þó misjafn eftir kyni, aldri og búsetu. Nokkru fleiri konur sögðust styðja aðgerðirnar, eða 79%, en hjá körlunum var hlutfallið 71%. Minnstur var stuðningurinn í yngsta aldurshópnum, 18-25 ára, eða einungs 52,3%, en svo töluvert hærri í eldri hópunum og mest 86,4% í einum þeirra (56-65 ára). Þá mátti greina mikinn mun á afstöðu fólks eftir búsetu, en innan við helmingur íbúa í miðborginni, eða 47,2%, studdi aðgerðirnar samkvæmt könnuninni. Því var svo öfugt farið í Árbæ, en hjá íbúum þar mældist stuðningur við aðgerðir lögreglunnar 92,1%. Kópavogsbúar og Garðbæingar voru ekki langt á eftir í stuðningi, en hann mældist meira en 80% í báðum sveitarfélögunum. Stuðningur við aðgerðir lögreglunnar mældist síðan á milli 70-80% hjá íbúum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Sem fyrr var ýmist verið að herða eða slaka á reglum eftir því sem faraldurinn hagaði sér og fjöldatakmarkanir tóku breytingum eftir því. Sama átti við um nálægðarmörk og grímuskyldu og hélst það út árið, en öllu þessu fylgdu líka á köflum ýmsar undantekningar og ákveðin skilyrði. Þetta gat verið snúið við að eiga í störfum lögreglu enda fór hún ekki varhluta af veikindum starfsmanna í heimsfaraldrinum frekar en aðrir. Er haustið leið undir lok veiktist hópur starfsmanna af COVID-19 og enn fleiri hjá embættinu þurftu að fara í sóttkví. Samtals fóru um 200 manns í skimun vegna þessa, en engu að síður náði starfsemin að ganga fyrir sig með eðlilegum hætti og hafði ekki áhrif á þau útköll sem lögreglan þurfti að sinna þennan tíma. Að endingu má nefna að starfsmenn frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gegndu áfram störfum fyrir sérstakt smitrakningarteymi, en vinna þess var ómetanleg í baráttunni gegn COVID-19.