RAUÐAGERÐISMÁLIÐ

Ársskýrsla 2021

Morðið á albönskum karlmanni í febrúar var það mál sem vakti mesta athygli á árinu og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Málið vakti bæði óhug og ótta hjá almenningi enda þótti morðið kaldrifjað, en maðurinn var skotinn nokkrum skotum í búk og höfuð síðla kvölds fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík. Þetta var á laugardagskvöldi aðra helgina í febrúar og fór lögreglan á vettvang um leið og tilkynning barst. Strax var ljóst að um mjög alvarlegt mál var að ræða, en eftir flutning á slysadeild var maðurinn úrskurðaður látinn. Sjá mátti nokkur skotför á líki mannsins og því hafði mögulega átt sér stað manndráp af ásetningi. Við tók umfangsmikil rannsókn næstu vikurnar, en þegar mest var tóku ríflega 30 lögreglumenn þátt í henni. Fjöldi annarra lögreglumanna tók enn fremur þátt í öðrum aðgerðum vegna málsins, þ.e. leitum og vettvangsrannsóknum og voru þeir sömuleiðis í sérstöku viðbragði vegna morðsins. Til viðbótar unnu um tíu manns að úrvinnslu ýmissa gagna vegna málsins. Þá eru ótaldir níu ákærendur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem allir komu að rannsókninni með einhverjum hætti. Þrír þeirra unnu eingöngu að málinu frá því að það hófst, en af öllu þessu sést hversu umfangsmikið það var.

Málið var í algjörum forgangi hjá embættinu, en tæplega sólarhring eftir morðið var karlmaður á fertugsaldri úrskurðaður í gæsluvarðhald í þágu rannsóknarinnar. Fleiri áttu eftir að bætast í hópinn, en þegar mest var sátu níu manns í gæsluvarðhaldi. Um tíma voru alls fjórtán aðilar frá tíu löndum með réttarstöðu sakbornings í málinu, en auk þeirra var rætt við fjölda vitna. Strax á fyrstu klukkustundum rannsóknarinnar var lögð fram krafa í dómi þar sem þess var krafist að fjarskiptafyrirtæki afhentu lögreglu fjarskiptagögn úr síma hins látna. Bæði til að sjá við hverja hann var í samskiptum fyrir andlátið og líka til að staðsetja ferðir hans. Í kjölfarið fylgdi krafa um húsleit, en alls voru lagðar fram um eitt hundrað kröfur í þágu rannsóknarinnar og þurftu dómstólar að taka afstöðu í öllum tilvikum. Betri mynd fékkst á málið eftir því sem rannsókninni vatt fram og í mars urðu ákveðin þáttaskil. Morðvopnið, 22 cal. byssa, fannst eftir leit lögreglu í sjó utan við höfuðborgarsvæðið og einn sakborninganna, landi fórnarlambsins, játaði sök. Játningin kom heim og saman við kenningar lögreglu um atburðarásina.

Rannsóknin stóð yfir vikum saman og þótti einhverjum skorta á meiri upplýsingar frá lögreglu um gang hennar. Vegna umfangs málsins tók hins vegar tíma að ná utan um það, en rannsóknin snéri m.a. að hugsanlegum tengslum aðila við skipulagða brotahópa. Um brýna rannsóknarhagsmuni var því að ræða. Að því ógleymdu að um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi, en slíkt er fáheyrt. Það var því rík ástæða fyrir lögreglu að halda upplýsingum þétt að sér og tryggja að þær bærust ekki á milli manna. Morðið vakti eðlilega óhug, eins og áður sagði, en það var samt mat lögreglu að öryggi almennings hefði ekki verið stefnt í hættu þrátt fyrir atburðinn í Rauðagerði. Þegar greint var fá lyktum málsins á blaðamannfundi embættisins í lok mars var þess getið sérstaklega að áfram yrði fylgst náið með framvindu þess m.t.t. hættu á hefndaraðgerðum eða uppgjöri. Við sama tækifæri kom fram að miðlæg rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefði lyft grettistaki í rannsóknum, kortlagningu og þjálfun starfsmanna vegna rannsókna á skipulagðri brotastarfsemi undanfarin misseri. Og hefði sú þekking komið að góðum notum við rannsókn málsins.