KYNFERÐISBROT OG HEIMILISOFBELDI

Ársskýrsla 2021

Mikilvægt skref var stigið í að bæta þjónustu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við þolendur kynferðisbrota, en seint á árinu 2021 var opnuð sérstök þjónustugátt lögreglu í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra. Um var að ræða rafræna þjónustugátt þar sem þolendur geta fengið upplýsingar um stöðu mála sinna og þær bjargir sem þeim standa til boða. Fram hafði komið að þolendur kynferðisbrota töldu upplýsingar skorta um fyrrnefnt og því var nauðsynlegt að geta bætt þar úr með opnun þjónustugáttar. Fyrst um sinn var henni ætlað að þjónusta þolendur á höfuðborgarsvæðinu, en þetta var tilraunaverkefni til eins árs á meðan reynsla fengist á gáttina. Markmiðið er samt að gáttin verði aðgengileg fyrir alla þolendur óháð umdæmamörkum lögregluembætta. Rétt er líka að nefna að þjónustugátt lögreglu er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda um meðferð kynferðisbrota frá árinu 2018, en þar er eitt af markmiðunum að bæta upplýsingaflæði til brotaþola. Er það í samræmi við niðurstöður þjónustukönnunar, sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur framkvæmt meðal þolenda kynferðisbrota frá árinu 2020. Þar kom fram að 75% svarenda voru ánægð með þjónustu lögreglu, en að sama skapi sögðu 88% svarenda að þeir hefðu ekki nægilegar upplýsingar um stöðu máls síns. Er gáttinni ætlað að bæta þar úr. Ýmislegt fleira hefur reyndar verið gert til bóta þegar rannsóknir kynferðisbrota eru annars vegar hjá embættinu. Má þar nefna styttingu málsmeðferðartíma, aukin gæða rannsókna og sérhæfða kærumóttöku, en allt eru þetta atriði sem skipta mjög miklu máli.

Rúmlega 100 nauðganir voru til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2021. Málafjöldinn hefur sveiflast nokkuð gegnum árin, en fyrir því geta verið ýmsar ástæður og þar kann umræðan í þjóðfélaginu um málaflokkinn hverju sinni að hafa áhrif. Brotaþolar virðast t.d. frekar þora að stíga fram nú en áður og það er vel. Hvað sem allri tölfræði líður, eru málin alltof mörg og vonandi tekst að fækka þessum hræðilegu brotum. Undanfarin ár hefur lögreglan líka fengið á sitt borð mál er varða stafrænt kynferðisofbeldi. Með því er átt við dreifingu á kynferðislegu myndefni án samþykkis, en þesskonar málum hefur fjölgað hjá embættinu en þar eiga oft í hlut ósakhæfir einstaklingar. Eins og við mátti búast vöktu mörg kynferðisbrotamálanna mikla athygli, og þá um leið óhug almennings. Þar má sérstaklega nefna máls karlmanns á sjötugsaldri, en sá var grunaður um fjölmörg brot gegn börnum, þ.e. blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot. Og einnig fyrir að reyna að mæla sér mót við börn í kynferðislegum tilgangi. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðar dæmdur í nokkurra ára fangelsi fyrir brot sín.

Ekkert lát var á heimilisofbeldismálum á höfuðborgarsvæðinu árið 2021, en embættinu bárust í kringum 800 tilkynningar vegna þessa. Það er svipaður málafjöldi og árið á undan, en tugir tilkynninga bárust alla mánuði ársins. Sjaldnast voru þær færri en 60 á mánuði og meira en 80 þegar mest var. Heimilisofbeldi er því miður daglegt brauð, en við því hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brugðist með skýru verklagi. Hún hefur jafnframt mjög einbeittan vilja til að taka á þessum málum, í samstarfi við fleiri aðila, og vel hefur miðað undanfarin ár. Töluvert verk er þó óunnið, en það er jákvætt að tilkynningum um heimilisofbeldi hafi fjölgað síðustu árin þótt það kunni að hljóma skringilega í eyrum margra. Mikil umfjöllun um heimilisofbeldi hefur hjálpað brotaþolum að stíga fram og þá um leið lögreglu og fleirum til að bregðast við og koma til hjálpar. Það er mjög mikilvægt.