INNBROT OG ÞJÓFNAÐIR

Ársskýrsla 2021

Þjófar voru víða  á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu árið 2021, en þjófnaðarbrot voru um 4.300 og fjölgaði lítillega frá árinu á undan. Eins og áður dreifðust brotin með svipuðum hætti yfir allt árið, voru meira áberandi frá vori til hausts en færri í svartasta skammdeginu. Innbrot voru rúmlega 900, en hátt í helmingur þeirra var innbrot á heimili. Um 200 sinnum var brotist inn í fyrirtæki og/eða verslanir og í litlu færri skipti var um að ræða innbrot í ökutæki. Hinir óprúttnu aðilar voru af ýmsu sauðahúsi og þar með þjóðernum. Erlend þjófagengi áttu þar hlut að máli, en slíkt er ekki lengur nýlunda á Íslandi. Allt er þetta hluti af alþjóðlegri þróun, sem er jafn óæskileg hér sem annars staðar. Brotamenn ferðast á milli landa í miður góðum tilgangi og Ísland er líka viðkomustaður þeirra. Íslenskir þjófar voru sömuleiðis athafnasamir, svo því sé einnig haldið til haga, og sumir ansi stórtækir.  Þótt skrýtið sé frá að segja eru ákveðin brot nánast árstíðarbundin, en undir það má setja reiðhjólaþjófnaði. Tilkynningum um reiðhjólaþjófnaði fer að fjölga mjög þegar líður að vori og þær halda áfram að berast í miklu mæli fram yfir mitt sumar. Árið 2021 var engin undantekning í þeim efnum, en alls bárust rúmlega 600 tilkynningar um reiðhjólaþjófnaði. Mánuðina maí, júní og júlí voru þær að jafnaði 80-90 og því mátti líkja þjófnuðunum við faraldur. Mörg hjólanna enda reyndar í vörslu lögreglu þegar tekst að hafa hendur í hári þjófanna, en miklu betur mætti samt ganga að koma þeim öllum aftur í réttar hendur. Það á við um fleiri óskilamuni og/eða þýfi, en upplýsingar um þess háttar er að finna í miðlum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, einkanlega á pinterest-síðu embættisins. Þar má t.d. sjá myndir af fundnum reiðhjólum, símum og skartgripum, auk mynda af munum úr innbrotum. Reglulega er minnt á síðuna en dugar ekki til, hlutir safnast upp og að lokum enda sumir þeirra á árlegu uppboði lögreglunnar.

Einn af stórtæku þjófunum var karlmaður um þrítugt, en hann braust inn á fjölmörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu á seinni hluta ársins. Hann valdi sér einkum nýbyggingar til að stela úr og tók úr þeim ófrjálsri hendi m.a. ógrynni verkfæra. Með þrautseigju tókst að hafa hendur í hári mannsins, en þegar hann var handtekinn var jafnframt lagt hald á mikið magn af þýfi. Töluverðan tíma tók að koma hinum illa fengnu hlutum aftur í réttar hendur, en talið var að eitthvað af þýfinu hafi endað á sölusíðum á netinu. Af því tilefni sendi lögreglan frá sér tilkynningu, og ekki í fyrsta sinn, þar sem fólk var hvatt til að sýna árvekni við kaup á sölusíðum. Í henni var t.d. bent á að fara fram á kvittun seljanda fyrir vörunni. Annar stórtækur þjófur sem kom við sögu á árinu lagði leið sína í flestar áfengisverslanir á höfuðborgarsvæðinu og stal úr þeim áfengisflöskum af ýmsum gerðum. Þjófurinn, karlmaður á fertugsaldri, lét líka greipar sópa í mörgum stórmörkuðum og stal úr þeim ilmvötnum í stórum stíl, auk tuga hljómplatna. Lyfja- og raftækjaverslanir urðu líka fyrir barðinu á manninum, sem bókstaflega stal öllu steini léttara.

Tveir ósvífnir þjófar voru líka á ferðinni seint á árinu og stálu símum og fartölvum úr búningsklefum íþróttahúsa. Hinir óprúttnu aðilar voru handteknir og úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Þjófarnir, karlmenn á þrítugsaldri, voru jafnframt grunaðir um að hafa fleiri brot á samviskunni. Enn einn þjófurinn, sem kom við sögu lögreglu á árinu, braust inn í geymslur og hafði raunar verið við sömu iðju árið á undan. Heima hjá honum fannst mikið af þýfi og var það á ýmsum stöðum á heimilinu, m.a. undir eldhúsinnréttingu.

Í gegnum árin hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu iðulega sent út tilkynningar um ýmislegt sem ber að varast og því var framhaldið árið 2021. Um mitt sumar hafði verið töluvert um innbrot og þjófnaði í umdæminu og því var fólk hvatt sérstaklega til að vera á varðbergi. Um var að ræða þjófnaði á reiðhjólum, rafmagnshlaupahjólum og vespum, auk þess sem innbrot í bíla, geymslur og á heimili og byggingarsvæði höfðu verið áberandi. Þá var umráðamönnum ökutækja m.a. bent á að hafa ekki hluti í augsýn sem gætu freistað þjófa. Eins var ítrekað að fólk léti vita af grunsamlegum mannaferðum og að ganga tryggilega frá heimilum áður en farið var í burtu í lengri eða skemmri tíma. Sömuleiðis að tilkynna nágrönnum um fjarveru, en nágrannavarsla getur bæði komið í veg fyrir innbrot og upplýst þau.