RÁN OG FJÁRSVIK

Ársskýrsla 2021

Árlega berast Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nokkur hundruð tilkynningar um fjársvik og árið 2021 var engin undantekning í þeim efnum. Þegar árið var úti töldust þetta rúmlega 400 mál, ekki ósvipað og árið á undan. Rannsóknir fjársvikamála geta verið mjög umfangsmiklar og því fer drjúgur tími lögreglunnar í að upplýsa þau, en hið sama gildir líka iðulega um önnur auðgunarbrot sem eru til meðferðar. Í þessu samhengi má einnig nefna fjárdráttarmál, sem teljast reyndar fá í samanburði við fjársvikin. Vegna heimsfaraldursins var embættið áfram sérstaklega á verði vegna fjársvika og var óþreytandi að vekja máls á hættum sem leyndust víða á netinu. Fjöldi slíkra viðvarana var t.d. birtur á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var full ástæða til. Oft var þetta endurtekið efni, en þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar dugði það ekki alltaf til. Því miður voru margir sem létu glepjast og fóru sumir þeirra ansi illa út úr þeim viðskiptum. Segja má að svikahrapparnir hafi beitt allskonar brögðum. Vinsælt var að senda fólki tölvupósta þar sem þrjótarnir sigldu undir fölsku flaggi í nafni ýmissa fyrirtækja og freistuðu þess þannig að komast yfir peninga. Líkja mátti þessu við plágu og því miður höfðu hinir óprúttnu náungar oft erindi sem erfiði.

Oft bárust lögreglunni margar tilkynningar þegar tiltekið svindl var í gangi og þá var upplýsingum um það komið á framfæri við almenning jafnharðan. Aðferðir svindlaranna voru að sjálfsögðu misjafnar og óhætt að segja að margir þeirra hafi verið ansi ósvífnir. Einn úr þeim hópi, karlmaður um þrítugt, var með langa slóð brota á eftir sér þegar réttvísin náði loksins í skottið á honum og stöðvaði brotahrinuna. Sá var með sölusíður á netinu undir ýmsum nöfnum og blekkti fólk til að millifæra peninga inn á reikning hans eða samverkamanns, konu á þrítugsaldri. Ýmsum varningi var lofað gegn greiðslu, en þegar til kom var hann aldrei afhentur. Einkum voru þetta verkfæri sem svindlarinn lofaði, en einnig símar, leikjatölva, reiðhjól og hrærivél svo eitthvað sé nefnt. Þá stal maðurinn einnig eftirvögnum og seldi, auk þess að dæla bensíni á bifreiðar og aka síðan á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið. Allt þetta og fleira til var rakið í ákæru á hendur svindlaranum, en svo fór að hann og samverkamaðurinn voru dæmdir í fangelsi fyrir háttsemina.

Falsaðir peningaseðlar koma reglulega við sögu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en í ársbyrjun tókst óprúttnum náungum að greiða fyrir vörur með fölsuðum seðlum í allnokkur skipti. Fölsunin var ekki vönduð en náði samt að blekkja grandalausa, en þrjótarnir fóru á bensínstöðvar, kaffihús, verslanir og sjoppur í umdæminu við þessa iðju. Framvísuðu þeir 5.000 kr. seðlum, sem voru þokkalega prentaðir en búið var að krumpa þá þegar kom að greiðslu á staðnum. Seðlana mátti samt þekkja auðveldlega því á þá vantaði nánast alla öryggisþætti. Í framhaldinu var biðlað til afgreiðslufólks að kynna sér hvernig þekkja mátti alvöru seðla frá fölsuðum og voru birtar með skýringarmyndir, bæði á lögregluvefnum og fésbókarsíðu embættisins. Einnig var bent á penna sem fæst í ritfangaverslunum, en með honum mátti skrifa á seðla. Ef við það kom litur á seðilinn var hann falsaður, en pennann mátti líka nota með sama hætti á erlenda seðla. Þeir höfðu líka komið við sögu í einhverjum málanna. Fleiri fjársvikamál verða ekki rakin hér, en þess má geta að þau sem verða fyrir hverskyns netsvindli geta haft samband við embættið með tölvupósti á netfangið cybercrime@lrh.is

Rán er að jafnaði vikulegur atburður á höfuðborgarsvæðinu, en undanfarin ár hafa þau iðulega verið um 50. Undantekning varð árið 2020, en þá voru þau töluvert fleiri, en árið 2021 var talan aftur kunnugleg, en rúmlega 50 rán voru til rannsóknar hjá embættinu. Mikil líkindi eru með mörgum málanna, og þar kemur iðulega við sögu fólk sem á erfitt uppdráttar af einhverjum ástæðum. Oft er um að ræða ungt fólk, sem hefur leiðst út í neyslu fíkniefna og freistast til þess að fjármagna neysluna með þessum hætti. Sjaldnast er mikið upp úr ránum að hafa, en þess meiri hætta að einhver slasist þegar þau eiga sér stað. Lyfjaverslanir verða gjarnan fyrir barðinu á ræningjum og svo var einnig þetta árið. Ein slík lyfjaverslun á höfuðborgarsvæðinu var rænd á haustmánuðum, en gerandinn, ungur piltur, náðist fljótlega og hafði ekkert upp úr krafsinu. Engan sakaði, en afgreiðslufólkinu var eðlilega mjög brugðið við uppákomuna enda var því ógnað með hnífi.