SKIPULÖGÐ BROTASTARFSEMI

Ársskýrsla 2021

Sveiflur í haldlagningu fíkniefna hafa verið miklar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gegnum árin og koma fæstum á óvart. Þær eiga sér eðlilegar skýringar og nærtækast er að nefna að svokölluð stór mál ríða baggamuninn. Haldlagningar fíkniefna eiga sér samt stað í umdæminu árið um kring, en um lítið magn er að ræða í langflestum tilvikum. Reglulega koma þó upp mál þar sem lögreglan kemst yfir mikið magn fíkniefna og því sveiflast tölur um magn oft mikið á milli ára. Þetta á við um árið 2021 eins og önnur, en í stærri málum eru yfirleitt að baki umfangsmiklar rannsóknir og tímafrekar eftir því. Þarna er um að ræða skipulagða brotastarfsemi, en brotamennirnir leita allra leiða til að vera einu skrefi á undan lögreglunni. Hún er þó ávallt við öllu búin, en vel hefur tekist til í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi undanfarin ár. Lykillinn að góðum árangri er ekki síst náið og öflugt samstarf og þar hafa lögregluembættin á Íslandi sannarlega snúið bökum saman, ásamt tollyfirvöldum auðvitað. Samstarf við erlend lögreglulið gegnir líka æ mikilvægara hlutverki enda teygir starfsemi brotahópa sig út um allan heim.

Á árinu var lagt hald á 110 kg af marijúana og var það meira en tvöfalt magn þess sem lögreglan tók í sína vörslu árið á undan. Sem fyrr voru kannabisræktanir stöðvaðar víða á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á fyrri hluta ársins, en á stuttu tímabili var lagt hald á mjög mikið magn kannabisefna sem fannst á fjórum stöðum í umdæminu. Það var mat lögreglu að í öllum tilvikum voru efnin ætluð til sölu og dreifingar, en um var að ræða umfangsmiklar ræktanir í bæði iðnaðar- og íbúðarhúsnæði, m.a. í sérútbúnu rými og var búnaðurinn eftir því. Á einum fyrrnefndra staða var jafnframt lagt hald á það sem var talið vera 1 kg af ætluðu amfetamíni. Nokkrir voru handteknir í þessum aðgerðum lögreglunnar og einn var enn fremur úrskurðaður í gæsluvarðhald. Margir fleiri voru í haldi lögreglu, um lengri eða skemmri tíma, vegna rannsókna hennar í málaflokknum. Þar má nefna mann sem sat í varðhaldi eftir að nokkur kíló af amfetamíni fundust í frystikistu á ónefndu heimili á höfuðborgarsvæðinu. Þegar árið var úti hafði verið lagt hald á um 11 kg af amfetamíni, sem var um helmingi minna magn en árið 2020. Sveiflurnar voru því miklar í haldlagningum fíkniefna á þessu tímabili sem öðrum og er kókaín þá ótalið. Hátt í 8 kg af kókaíni voru tekin í vörslu lögreglu, en voru um 2 kg árið á undan. Af öðrum fíkniefnum sem komu við sögu og var lagt hald á árið 2021 má nefna metamfetamín, hass, LSD og e-töflur (MDMA). Auk magns er áhugavert að nefna fjölda tilvika þegar haldlagningar voru annars vegar. Árið 2017 var lagt hald á rúmlega 26 kg af marijúana í samtals rúmlega 900 tilvikum. Árið 2021 var magnið um 110 kg eins og áður sagði, en tilvikin rúmlega 500. Af því leiðir að málin voru bæði stór og smá og magnið eftir því hverju sinni. Skráð fíkniefnabrot á höfuðborgarsvæðinu voru um 1.500. Flest vörðuðu meðferð ávana- og fíkniefna, en mál vegna flutnings fíkniefna milli landa voru rúmlega 200. Mál vegna framleiðslu fíkniefna voru um 50 og mál sem sneru að sölu og dreifingu fíkniefna voru í kringum 130.

Skipulögð brotastarfsemi var þó ekki bundin við fíkniefni, fjarri því. Þjófnaður úr verslunum kom líka við sögu og var stundaður með skipulögðum hætti. Lögreglan komst á snoðir um slíkan hóp og stöðvaði iðju hans, en sá var skipaður erlendum ríkisborgum sem virtist hingað kominn í miður góðum tilgangi. Snemma á árinu var annar ámóta hópur til rannsóknar hjá embættinu, en hann skildi eftir sig slóð brota. Meðlimir hans höfðu framvísað fölsuðum peningaseðlum á ýmsum stöðum, en líka komist yfir PIN-númer vammlausra og tekið út af greiðslukortum þeirra með tilheyrandi fjárhagstjóni. Loks má nefna rannsókn lögreglu á fjölda mála er vörðuðu ætlaða skipulagða brotastarfsemi á vegum karlmanns um þrítugt og samverkamanna hans. Hún beindist að skjalafals- og fjársvikabrotum mannsins gegn fjölda fyrirtækja hérlendis, en andlag meintra brota hljóp á tugum milljóna króna. Maðurinn sat lengi í gæsluvarðhaldi, en hann var líka grunaður um peningaþvætti.