Umferðin á höfuðborgarsvæðinu fór vel af stað á árinu 2021 og fyrstu daga þess voru engin umferðarslys tilkynnt til lögreglu. Það átti þó eftir að breytast fljótt og þegar árið var gert upp var niðurstaðan vonbrigði. Banaslysum í umferðinni fjölgaði um eitt frá árinu á undan og umferðarslysin voru áfram fjölmörg, en þeim fjölgaði einnig frá árinu 2020. Í alllangan tíma hefur embættið birt vikulega samantekt um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu og því var framhaldið. Í þeim koma iðulega við sögu fjölfarnar götur eins og Miklabraut og Reykjanesbraut. Slys hafa löngum verið tíð á gatnamótum Miklubrautar við Grensásveg, Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut og það breyttist ekki árið 2021. Sama mátti líka segja um gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg og Lækjargötu/Hlíðarberg. Einnig má nefna gatnamót Fjarðarhrauns, Flatahrauns og Bæjarhrauns í Hafnarfirði, en þar hafa orðið mörg slys og óhöpp undanfarin ár. Á þessum stað er hringtorg, sem ökumenn virðast eiga í vandræðum með að aka um þegar horft er til talna um slys og óhöpp. Aðeins sunnar á þessum vegarkafla eru önnur gatnamót, sem áður voru nefnd, og einnig með hringtorg, þ.e. Reykjanesbraut/Lækjargata/Hlíðarberg og þar var ástandið líka miður gott í þessum efnum. Daglega var því lögreglan kölluð á vettvang vegna umferðarslysa, en um 550 manns slösuðust í þeim. Hátt í 100 þeirra slösuðust alvarlega og því er til mjög mikils að vinna að fækka umferðarslysum. Þess utan urðu um 4.400 umferðaróhöpp í umdæminu og eignatjónið eftir því. Flest slys og óhöpp urðu í Reykjavík, en öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu komu vitaskuld við sögu þegar umferðin á árinu 2021 var annars vegar. Hér hefur verið vísað til talna frá Samgöngustofu, en í samanburði við árið á undan, sem og önnur ár, verður að hafa hugfast og taka tillit til þess að heimsfaraldur hafði áhrif á umferðina árin 2020-2021.
Nokkar breytingar hafa verið gerðar á umferðarlögum síðustu árin, en erfitt er að meta árangur þess. Hér er t.d. átt við hærri sektir vegna umferðarlagabrota, hækkun aldurs þeirra sem er skylt að nota reiðhjólahjálm og að viðhafa ákveðið lágmarks bil við framúrakstur gagnvart reiðhjóli og léttu bifhjóli. Þá var lögfest að ökumaður í ytri hring í hringtorgi skyldi veita þeim forgang í innri hring, sem aka út úr torginu. Í ljósi þess sem var áður sagt um slys og óhöpp í hringtorgum er ástæða til að undirstrika það sérstaklega. Í umferðarmálum eru jafnframt stöðugar áskoranir, ekki síst er varðar að fækka slysum og þar þarf að gera betur. Af nýjum áskorunum má geta tilkomu rafhlaupahjóla, sem hafa sett mikinn svip á umferðina. Þau eru mjög hentugur ferðamáti og urðu fljótt vinsæl hjá stórum hópi vegfarenda. Rafhlaupahjól mátti sjá víða á miðborgarsvæðinu enda margir duglegir að nýta þau, m.a. erlendir ferðamenn. Um slys og óhöpp ökumanna á rafhlaupahjólum mátti líka lesa í vikulegum samantektum lögreglunnar um umferðarslys, en það þarf sömuleiðis að sýna aðgát og tillitssemi þegar slík farartæki eru annars vegar. Stundum var ökumönnum rafhlaupahjóla alfarið sjálfum um að kenna, en það er t.d. aldrei góðs viti að reyna að stjórna farartæki undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá fer illa og gildir einu hvert farartækið er.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur um langa hríð lagt mikla áherslu á að miðla gagnlegum upplýsingum til vegfarenda um hvaðeina sem lítur að umferð. Því hefur verið mjög vel tekið og vonandi átt þátt í að gera umferðina öruggari. Oftast eru þetta einföld atriði, t.a.m. að muna að kveikja ökuljós, nota stefnuljós, aka varlega og sýna tillitssemi. Þetta á við árið um kring og þessháttar skilaboð má sjá reglulega á fésbókarsíðu embættisins. Á veturna bætast við skilaboð um að skafa af bílrúðum og að minna á hálku þegar svo ber undir. Þetta árið komu skilaboð til vegfarenda um hálku á höfuðborgarsvæðinu óþægilega snemma að flestra mati, eða um mánuði fyrir fyrsta vetrardag samkvæmt almanakinu. Upplýsingum um lokanir gatna var iðulega komið á framfæri í miðlum lögreglunnar. Mest yfir sumarmánuðina þegar ráðist var í hefðbundnar framkvæmdir eins og malbikun og fræsingu gatna í umdæminu.