Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ávallt lagt mikla áherslu á eftirlit með hraðakstri í umdæminu og því var framhaldið árið 2021. Eftirlitinu er sinnt frá öllum lögreglustöðvum embættisins, auk þess sem sérstökum myndavélabíl hefur lengi verið haldið úti af sömu ástæðu. Hann er á ferðinni virka daga og úr honum er einkum fylgst með hraðakstri í íbúðahverfum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki síst við leikskóla og grunnskóla, sem og við þekktar gönguleiðir barna í og úr skóla eða tómstundastarfi. Starfsemi myndavélabílsins hefur gefist mjög vel, en niðurstöður allra hraðamælinga úr honum eru sendar sveitarfélögunum til upplýsinga. Dæmi eru um að þau hafi brugðist við mælingum lögreglu með hraðahindrandi aðgerðum. Hraðakstursbrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 voru annars um 20 þúsund og voru ökumenn staðnir að hraðakstri víða í umdæminu. Myndavélabíllinn var drjúgur sem fyrr, en á hverju hausti er honum stillt upp með skipulegum hætti við grunnskólana. Á nokkrum vikum við það eftirlit voru um 500 ökumenn staðnir að hraðakstri, en brotahlutfallið við mælingarnar var 27% sem verður að teljast hátt á stöðum sem þessum. Fjölmörg hraðakstursbrot voru enn fremur myndað á tilteknum stofnbrautum í Reykjavík, þ.e. Sæbraut, Hringbraut og Breiðholtsbraut, en þar var að finna færanlega rauðljósa- og hraðamyndavél. Rétt er þó að nefna að brotahlutfallið á áðurnefndum götum var jafnan lágt.
Ekki er hægt að tala um gott ár í umferðinni því fimm létust í jafnmörgum slysum, einum fleiri en árið á undan. Fjöldi banaslysa á höfuðborgarsvæðinu hefur sveiflast nokkuð í gegnum árin, en dæmin sanna að hægt er að gera betur. Árin 2019 og 2014 lést enginn vegfarandi í umferðarslysi og óskandi að slíkur árangur næðist á hverju ári. Í banaslysum ársins 2021 voru fjögur gangandi eða hjólandi. Það fyrsta varð í Reykjavík eftir miðjan janúar, en þá féll karlmaður á sjötugsaldri af reiðhjóli á göngustíg í Seljahverfi í Breiðholti og lést. Um mánuði síðar, í febrúar, varð karlmaður á áttræðisaldri fyrir bifreið á gatnamótum Kauptúns og Urriðaholts í Garðabæ með sömu afleiðingum. Og þegar langt var liðið á árið og útlit fyrir fækkun banaslysa, urðu þrjú banaslys í nóvember. Snemma í mánuðinum lést karlmaður á fertugsaldri í umferðarslysi á Hvalfjarðarvegi, en hann var farþegi í bifreið sem hafnaði utan vegar á móts við Félagsgarð í Kjósarhreppi. Viku síðar lést karlmaður á sextugsaldri þegar rafhlaupahjól og létt bifhjól rákust saman norðan gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar í Reykjavík. Sá látni var annar ökumannanna, en hinn slasaðist alvarlega. Og seint í nóvember lést kona á sjötugsaldri þegar hún varð fyrir strætisvagni við gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs í Reykjavík.
Fjölmargir ökumenn voru staðnir að ölvunar- og eða fíkniefnaakstri á höfuðborgarsvæðinu, en hinir sömu settu sjálfa sig og aðra í mikla hættu í umferðinni með dómgreindarleysinu. Nærri 1.400 ökumenn voru teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna, sem eru ívið færri en árið á undan. Nálægt 950 ökumenn voru hins vegar teknir fyrir að aka ölvaðir og fjölgaði þeim mikið á milli ára. Sumir þessara ökumanna, og á það bæði við um ölvunar- sem og fíkniefnaakstur, voru staðnir að verki oftar en einu sinni og var það mikið áhyggjuefni að áðurnefndir létu sér ekki segjast. Lögreglan stöðvaði líka för margra ökumanna, sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi, en þau tilvik voru rúmlega 1.000. Þá voru um 650 ökumenn teknir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar, en sektin fyrir athæfið var hækkuð mikið fyrir nokkrum árum. Ekki virðist það samt kom í veg fyrir þennan ósið fjölda ökumanna, en hann stefnir jafnframt umferðaröryggi í hættu hverju sinni. Að endingu má nefna að 550 ökumenn gerðust sekir um að aka gegn rauðu ljósi á höfuðborgarsvæðinu árið 2021.