UNGLINGAR Í VANDA

Ársskýrsla 2021

Á hverju ári berst lögreglu fjöldi leitarbeiðna vegna unglinga sem ekki hafa skilað sér heim, eða hafa strokið úr úrræðum á vegum barnaverndarnefnda. Árið 2021 urðu beiðnirnar tæplega 160 talsins og fækkaði nokkuð frá árinu á undan þegar þær voru ríflega 200. Flestar leitarbeiðnirnar bárust á fyrstu tveimur mánuðum ársins og svo í september, en undanfarin ár hafa flestar beiðnir borist að sumri til. Leitað var að 53 einstaklingum, 26 stelpum og 27 strákum. Að meðaltali leitaði lögregla að 9 unglingum á mánuði en leitirnar voru nokkuð fleiri. Þó algengast sé að lögregla leiti einu sinni að hverjum unglingi þarf stundum að leita ítrekað að sama unglingnum. Leitað var fjórum sinnum eða oftar að 12 unglingum.

Aðkoma lögreglu að leit að unglingum byggist á því að barnavernd viðkomandi sveitarfélags óski eftir aðstoð lögreglu við að hafa uppi á unglingi. Leitin er unnin í samvinnu við barnavernd og önnur lögregluembætti ef þurfa þykir. Hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er fastur starfsmaður sem sinnir slíkum verkefnum, en hann nýtur aðstoðar annarra þegar við á. Notaðar eru ýmsar aðferðir til að hafa uppi á krökkunum, og yfirleitt tekst nokkuð fljótt að finna þau en í undantekningartilfellum getur það tekið nokkra sólarhringa. Lögregla getur nýtt sér flygildi (dróna), sporhunda, símagögn og fengið aðstoð björgunarsveita í þeim málum þar sem óttast er að viðkomandi geti farið sér að voða. Einstaka sinnum er lýst eftir ungmennum í fjölmiðlum, en í lengstu lög er reynt að hafa uppi á krökkunum með öðrum aðferðum.

Miklu máli skiptir að hafa eins fljótt uppi á krökkunum og hægt er þar sem sýnt hefur verið fram á að tíminn þegar þau eru týnd getur reynst þeim mjög skeinuhættur. Á meðan þau fara huldu höfði er líklegra að þau prófi að gera hluti sem gæti skaðað þau og þau lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við.  Þegar ungmennin finnast fara þau í flestum tilvikum heim eða í úrræði á vegum barnaverndar. Þriðjungur fer í neyðarvistun á Stuðlum. Ástand þeirra getur verið misjafnt, en í sumum tilvikum eru þau undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna þegar þau finnast. Því miður er það svo að lögregla þarf stundum að leita margsinnis að sömu krökkunum á nokkurra ára tímabili, en þeim afskiptum lýkur þegar þau ná 18 ára aldri. Leitarverkefnum lögreglu fækkar þó ekki þó unglingarnir fullorðnist því yngri börn bætast í hópinn. Árið 2021 var leitað að 29 einstaklingum í fyrsta sinn.