JAFNRÉTTISMÁL

Ársskýrsla 2021

Jafnréttismál voru áfram ofarlega á baugi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2021. Þrátt fyrir að enn hafi mátt greina áhrif COVID-19 á starfsemina náðist þó nokkur árangur. Þar má helst nefna að undir lok ársins fékk embættið jafnlaunavottun og uppfyllti þar með kröfur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun er einnig staðfesting á því að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum innan embættisins feli ekki í sér kynbundna mismunun. Þá var framkvæmd launagreining á árinu, en samkvæmt niðurstöðum hennar mældist launamunur innan embættisins 1,7%, konum í vil þegar litið var til grunnlauna starfsfólks. 

Hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu hækkaði lítilega á milli ára, fór úr 32% í 34%. Það var ánægjulegt, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vildi þó gjarnan gera enn betur og á það ekki síst við þegar kemur að kynjahlutfalli í stjórnendahóp embættisins. Þar eru karlar enn talsvert fleiri. Kynjahlutföll voru þó jafnari í yfirstjórn embættisins, en þar var hlutfall kvenna 45%.

Í jafnréttisáætlun Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er tilgreint að laus störf og framgangur í starfi skuli standa öllu starfsfólki jafnt til boða svo mikilvægt er að rýna kynjahlutföll í ráðningum embættisins árlega. Á árinu voru birtar alls 13 auglýsingar á starfatorgi og alls komu 210 umsóknir um þau störf, þar af voru konur 96 eða um 46%. Út frá þessum auglýsingum voru ráðnir alls 76 einstaklingar til embættisins en þar af var helmingur konur og helmingur karlar. Sjö af þessum auglýsingum voru vegna stjórnunarstarfa og bárust í þau störf alls 64 umsóknir, þar af voru konur 26 eða um 41%. Alls voru ráðnir út frá þessum auglýsingum 12 stjórnendur, en þar af var hlutfall kvenna 33%.