EITT OG ANNAÐ

Ársskýrsla 2021

Undir lok júlí var leitað að sex ára stúlku í Þingholtunum í Reykjavík, en hún var í heimsókn í hverfinu og því ókunnug umhverfinu. Móðirin hringdi í lögregluna um leið og hvarfið uppgötvaðist og strax var hafist handa við að finna stúlkuna. Margir komu að leitinni, m.a. íbúar í hverfinu og vegfarendur þar, en aðdáunarvert var að sjá alla leggjast á eitt. Biðin var örugglega mjög erfið, en um klukkustund leið áður en stúlkan fannst. Hún hafði þá gengið töluverðan spöl, en það var vegfarandi sem fann stúlkuna og lét móðurina vita. Þá þegar höfðu verið gerðar ráðstafanir til að kalla út sporleitarhund og leitarflokk, en aðstoðarbeiðnin var afturkölluð þegar gleðitíðindi bárust. Lögreglumenn sóttu því næst stúlkuna og komu henni til móðurinnar og voru það fagnaðarfundir eins og gefur að skilja. Hópur fólks var vitni að endurfundum mæðgnanna og var þá klappað vel og innilega. Það var virkilega fallegt að sjá.

Snemma árs barst tilkynning um að skemmdir hefðu verið unnar á bifreið borgarstjórans í Reykjavík. Við tæknirannsókn komu í ljós tvö göt í afturhurð og hafði verið skotið á bifreiðina. Byssukúlur fundust á vettvangi og var málið litið mjög alvarlegum augum. Það var jafnframt talið tengjast öðru máli, en um svipað leyti voru unnar skemmdir á húsnæði Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þar brotnuðu sex rúður og ljóst var að skotvopni hafði verið beitt, en skot virtust hafa farið í gegnum fimm rúður, sem hver var með tvöföldu gleri. Byssukúlur fundist líka á vettvangi þar, en talið var að sama skotvopn hefði komið við sögu í báðum málunum. Embætti héraðssaksóknara tók yfir rannsóknina, en karlmaður um sextugt var handtekinn í þágu hennar og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Seint á árinu voru fleiri skemmdarverk til rannsóknar, en þá hafði verið skotið á rúður í fjölbýlishúsum í Kópavogi. Alls var um tíu tilvik að ræða, en atvinnuhúsnæði og bifreið í umdæminu urðu líka fyrir barðinu á skemmdarvarginum. Skemmdarverkin voru framin á rúmlega einum mánuði og mikil mildi að enginn skyldi slasast. T.d. fór kúla í gegnum rúðu í einni íbúðinni og hafnaði í borðstofuborði. Húsráðendum var eðlilega mjög brugðið, en talið var að loftbyssa hefði verið notuð við verknaðinn. Við rannsókn málsins var leitað eftir upplýsingum frá almenningi, en böndin beindust fljótt að ónefndum karlmanni. Framkvæmd var húsleit heima hjá honum og lagt hald á ýmsa muni, m.a. stálkúlur sem voru sambærilegar þeim sem fundust á vettvangi brotanna. Grunur var um að stálkúlunum hafi verið skotið úr teygjubyssu, en tvær slíkar byssur fundust í fórum mannsins.

Karlmaður um þrítugt lést á Landspítalanum um páskana, en þangað var hann fluttur eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás, að því að talið var, í Kórahverfinu í Kópavogi að morgni föstudagsins langa. Í fyrstu voru málsatvik mjög óljós, en í byrjun voru þrír handteknir vegna málsins. Einn þeirra var svo úrskurðaður í gæsluvarðhald, þá farbann og síðar ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Rannsókn leiddi í ljós að hinn látni og karlmaður á þrítugsaldri höfðu átt í samskiptum að morgni hins örlagaríka dags og mælt sér mót á bifreiðastæði utan við heimili hins fyrrnefnda. Þangað kom yngri maðurinn akandi á bifreið, en við brottför frá bifreiðastæðinu hélt eldri maðurinn báðum höndum um hliðarrúðu ökumannsins og dróst eða hljóp með henni uns hann féll í jörðina. Við það hlaut maðurinn höfuðáverka, sem leiddu hann til dauða. Ökumaðurinn var ákærður fyrir að ógna lífi og heilsu brotaþola á ófyrirleitinn hátt, en hann fór af vettvangi án þess að skeyta um manninn sem féll í jörðina. Talið var að maðurinn hafi haldið um hliðarrúðu bifreiðarinnar á meðan henni var ekið að lágmarki tæplega 14 metra. Bíllinn var álitinn vera á 15-20 km hraða meðan á þessu stóð.

Mikil hætta skapaðist í miðborg Reykjavíkur um mitt sumar þegar ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að komast undan. Við tók eftirför, en maðurinn ók um miðborgina, vestur í bæ og aftur í miðborgina uns hann nam staðar á Sæbrautinni, nálægt Sólfarinu, þegar dekk sprakk á bifreið hans. Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en ökumaðurinn, karlmaður um tvítugt, ók m.a. langt yfir leyfðum hámarkshraða, upp á gangstétt og gegn einstefnu. Á þeim kafla leiðarinnar mætti hann á annan tug ökutækja, m.a. vörubifreið, og máttu þeir ökumenn hafa sig alla við að forðast bifreið mannsins sem ekið var á öfugum vegarhelmingi. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi, en hann setti bæði sjálfan sig og aðra vegfarendur í gríðarlega hættu með þessu framferði.

Enn eitt málið þar sem skotvopn kom við sögu var í júní, en þá var tilkynnt um karlmann í nágrenni lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík. Sá var grunaður um að hafa skotvopn undir höndum og reyndist það rétt þegar maðurinn var handtekinn. Sá hafði áður, annars staðar í hverfinu, ógnað tveimur mönnum með vopninu en ekki var vitað hvað honum gekk til. Um var að ræða skammbyssu og var hún hlaðin, en í tösku sem maðurinn hafði meðferðis fundust fleiri skot. Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, sem var síðar framlengt, en hann var grunaður um fleiri brot. Þar mátti nefna tvær alvarlegar líkamsárásir fyrr á árinu, en í annarri þeirra var maður stunginn með hnífi á veitingastað í miðborginni.

Árið 2021 var um margt óvenjulegt eins og þegar hefur verið reifað í þessari ársskýrslu. Þar kemur baráttan við kórónuveiruna fyrst upp í hugann, en fleira má nefna. Náttúruöflin létu heldur betur á sér kræla, en skammt var liðið á árið þegar kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesi. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundu vel fyrir henni, en lýst var yfir hættustigi almannavarna í umdæminu. Og fólk var jafnframt hvatt til að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta. Þá hófst eldgos í Fagradalsfjalli og stóð það lengi yfir. Eldgosið vakti mikla athygli og var iðulega múgur og margmenni á gosstöðvunum. Það var ekki hættulaust, m.a. vegna gasmengunar, en sumir áttu erfitt með að virða reglur og fyrirmæli sem giltu á svæðinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór þangað til aðstoðar og veitti ekki af.  Hættustig var líka gefið út í umdæminu á vormánuðum, en þá vegna þurrka og hættu á gróðureldum í Heiðmörk og á öðrum gróðursvæðum. Öll meðferð opins elds var því bönnuð og fólk enn fremur beðið um viðhafa ekkert það sem gæti skapað eldhættu á gróðursvæði.