Um alllangt skeið hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notast við samfélagsmiðla og hefur það gefist vel. Fylgjendur embættisins á vettvangi fésbókarinnar eru hátt í 100 þúsund og segir það meira en mörg orð. Áhugi á lögreglu og störfum hennar er greinilega mjög mikill, en á fésbókarsíðu embættisins má m.a. fá innsýn í hin daglegu verkefni. Á síðunni er miðlað allskonar upplýsingum, en líka upplýsingum frá öðrum stofnunum þegar svo ber undir. Athygli er vakin á ýmsu sem á erindi til fólks og eins er varað við öðru þegar ástæða er til. Áfram var haldið á þessari braut árið 2021, en nýjar færslur birtust á fésbókarsíðunni flesta daga vikunnar. Árið var annasamt, eins og þegar hefur komið fram, og því þurfti að koma mörgum skilaboðum á framfæri. Heimsfaraldur kom þar við sögu, sem og jarðskjálftar og eldgos. Þá var um tíma hætta á gróðureldum og við því var líka varað, en fólk var beðið um að virða bann um meðferð opins elds í umdæminu.
Ófá skilaboð lutu að umferðinni og færð á vegum. Ökumenn voru iðulega minntir á að aka varlega og sýna tillitssemi. Sagt var frá framkvæmdum og lokunum fjölfarinna gatna og féll sú þjónusta við vegfarendur vel í kramið. Fjársvik voru líka reglulega til umfjöllunar á fésbókarsíðunni, en ítrekað voru send viðvörunarorð vegna netsvindls af ýmsu tagi. Gylliboðin í þeim efnum voru fjölmörg og því áríðandi að bregðast við þeim hverju sinni. Myndbirtingar af fólki í tengslum við mál hjá embættinu voru nokkuð áberandi og gaf það jafnan góða raun. Við leit að týndu fólki sýndi fésbókarsíðan mátt sinn og var ómetanleg hjálp við að finna viðkomandi eftir að ábendingar bárust. Instagram-síða embættisins hefur líka notið mikilla vinsælda, en fylgjendur hennar virðast þó að stórum hluta vera útlendingar. Á síðunni er oft að finna skemmtilegar myndir úr starfi lögreglunnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er líka á Twitter, en árlegt löggutíst hennar vekur jafnan mikla athygli.
Á lögregluvefnum er enn fremur að finna fréttir og upplýsingar um þjónustu embættisins, m.a. um óskilamuni og sérstaka síðu þeim tengda, www.pinterest.com/logreglan Allar ársskýrslur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2007 eru sömuleiðis aðgengilegar á lögregluvefnum.