VIÐHORFSKÖNNUN

Ársskýrsla 2021

Á hverju ári lætur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gera könnun á viðhorfum höfuðborgarbúa til þjónustu og starfa hennar. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmdina þetta árið, en könnunin náði til 2.000 manna úrtaks (netpanell) og var lögð fyrir á vormánuðum. Svarhlutfall var 52%. Meirihluti höfuðborgarbúa taldi lögreglu skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum í sínu hverfi, eða um 80% íbúa. Svipað hlutfall taldi lögreglu í hverfinu sínu heiðarlega og að hún ynni í þágu almennings. Traust til lögreglu lækkaði örlítið milli ára og var tæp 78%, en hefur að meðaltali verið 79% í könnunum Gallup á árunum 2007-2022. Almennt má því segja að íbúar í umdæminu hafi jákvætt viðhorf til lögreglu, en yngra fólk efast þó meira um lögmæti lögreglu en þeir sem eldri eru.

Íbúar í Garðabæ, Hafnarfirði og Grafarvogi töldu sig öruggasta einir á ferli eftir myrkur í eigin hverfi, en síst íbúar í Breiðholti og miðborginni. Þegar hins vegar var spurt hversu öruggir íbúar væru einir á ferli eftir myrkur í miðborginni snérist þetta við, þeir sem bjuggu í miðborginni eða næst henni voru mun öruggari en þeir sem bjuggu lengra í burtu. Flestir töldu innbrot vera mesta vandamálið í sínu hverfi (22%), en eignaspjöll, þjófnaðir og umferðarlagabrot komu þar á eftir (18% nefndu hvert þessara brota). Aðspurðir um hvort þeir hafi orðið fyrir afbroti síðasta árið, höfðu 9% svarenda orðið fyrir innbroti, tíundi hver fyrir þjófnaði, 6% fyrir broti í nánu sambandi, 2% fyrir ofbeldi og 1% fyrir kynferðisbroti. Misjafnt var eftir brotaflokkum hversu hátt hlutfall brotaþola hafði tilkynnt brotið til lögreglu.

Um 29% leitaði eftir þjónustu eða aðstoð lögreglu árið áður en könnunin var lögð fyrir og fækkaði þeim um 6% milli ára. Það kann að eiga sér eðlilegar skýringar að einhverju leyti þar sem árið 2020 (sem spurt var um) var fyrir margra hluta sakir óvenjulegt vegna samkomutakmarkana og annarra hafta sem tengdust COVID-19. Yngri þátttakendur voru líklegri til að hafa leitað til lögreglu en þeir sem eldri eru. Af þeim sem leituðu til lögreglu voru 78% ánægð með þjónustu lögreglu en ánægjan var þó mismikil eftir því hvaða leið var farin til að nálgast lögreglu. Spurt var sérstaklega út í viðhorf íbúa til aðgerða lögreglu vegna COVID-19, líkt og gert var í könnuninni fyrir ári. Þrír af hverjum fjórum studdu nú aðgerðir lögreglu vegna heimsfaraldursins og fækkaði þeim um 14 prósentustig á milli ára. Einungis 4% töldu aðgerðir lögreglu hafa verið of harkalegar. Almennt voru konur hlynntari aðgerðunum en karlar og þeir sem eldri voru hlynntari en þeir yngri.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má finna á vef lögreglunnar: Reynsla höfuðborgarbúa af afbrotum og viðhorf til lögreglu (logreglan.is)