BREYTINGAR OG FRAMFARASKREF

Ársskýrsla 2021

Nýtt skipurit fyrir embættið var samþykkt á vordögum. Hinu nýja skipuriti var ætlað að endurspegla embættið eins og það hafði þróast frá því að síðasta skipurit var samþykkt. Þá var einnig hagræðing inni í skipuritinu. Sviðin eru alls sex en voru átta skv. gamla skipuritinu. Almenn deild og aðgerðardeild voru sameinuð undir löggæslusviði og rannsóknardeild og stoðdeild voru sameinuð undir miðlægðu rannsóknarsviði. Yfirlögfræðingur, áður aðallögfræðingur, fer fyrir nýju stjórnsýslu- og þjónustusviði, sem áður hét stoðþjónusta og greining, auk þess sem lögfræðileg málefni heyrðu þar undir. Þá var innri endurskoðun færð á skrifstofu lögreglustjóra, en gert var ráð fyrir að sami yfirlögregluþjónninn sinnti því auk stefnumótunar og þróunar.  Gert var ráð fyrir að mögulegt sé að hafa tvo aðstoðarlögreglustjóra, eins og heimilt er í lögreglulögum. Annar á löggæslusviði, sem flestir lögreglumenn heyra undir, og hinn á ákærusviði. Loks urðu breytingar innan sviða, en þær voru minni háttar frá síðasta skipuriti.

Stytting vinnuvikunnar kom til framkvæmda í ársbyrjun. Fyrst um sinn náði hún til þeirra sem voru í dagvinnu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en um vorið tók styttingin líka gildi hjá þeim sem voru í vaktavinnu. Við þetta tók vinnutilhögun margra jákvæðum breytingum enda styttingin fagnaðarefni. Hún var þó jafnframt áskorun fyrir embættið enda einhverjum spurningum ósvarað þegar styttingin hófst. Úr því var hins vegar unnið samhliða því sem breytingarnar tóku gildi. Starfsmenn settu ekki hnökra fyrir sig í upphafi og voru almennt mjög ánægðir með nýja vinnutilhögun og styttri vinnutíma sem því fylgdi. Fyrirkomulagið gilti út árið og var þá tekið til endurskoðunar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt metnað sinn í að vinna að stöðugum umbótum á jafnlaunakerfinu samkvæmt ákvæðum jafnréttislaga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Og að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf óháð kyni, sem og annarra laga og reglna er snúa að jafnréttismálum. Því var einkar ánægjulegt að embættið hlaut jafnlaunavottun á árinu, en það var staðfest með bréfi frá Jafnréttisstofu. Í því felst að uppfyllt eru skilyrði laga sem varða jafnlaunastaðalinn IST 85:2012. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna. Staðfesting á jafnlaunavottun voru gleðileg tíðindi og góður áfangi.

Sífellt bætist við rafrænu þjónustu lögreglu, en á árinu 2021 hóf embættið tilraunaverkefni með ríkissaksóknara um rafrænar sendingar á bréfum þar sem tilkynnt var um að rannsókn máls sé hætt. Þessi afgreiðsla gerði að verkum að bréfin bárust fyrr til viðtakenda auk þess að miklu minni vinna fólst í sendingu þeirra. Bréfin urðu til í lögreglukerfinu, LÖKE, og voru send þaðan með einum músarsmelli. Hægt var að sjá hvort, og þá hvenær, viðtakandi hafi opnað bréfið og fleira sem gerði það að verkum að þetta verklag var stórt skref upp á við. Eftir að tilraunin hófst, og hundruð bréfa voru send með þessum hætti, virtist samkvæmt upplýsingum að helmingur þeirra væri opnaður og þar með lesinn. Vonir stóðu til þess að leyfi fengist til að hætta sendingu pappírs og færa tilkynningar sem þessar alfarið yfir á island.is.